Hinn tilkomumikli Gullfoss

Það er erfitt að setja sig inn í tíðaranda fyrri tíma en það er auðvelt að vera þakklátur fyrir hugsjónir þeirra sem börðust gegn því að Gullfoss yrði virkjaður. Eitt sinn voru uppi hugmyndir um að virkja Gullfoss, þessa perlu íslenskra fossa og einn sá fossa sem flestir erlendir ferðamenn heimsækja.

Frá því um aldarmótin 1900 og fram að seinni heimsstyrjöld voru ýmsir sem tóku fossinn á leigu og eða gerðu tilkall til vatnsréttinda. Að lokum var fossinn og landið þar í kring keypt af íslenska ríkinu sem hafði uppi ýmsar hugmyndir um virkjanir og nýtingu vatnsaflsins.

Sú manneskja sem mest sótti fram til verndunar Gullfoss var Sigríður Tómasdóttir frá Brattholti, dóttir Tómasar Tómassonar sem um 1940 seldi ríkinu hlut af fossinum. Það var svo ekki fyrr en á níunda áratug síðustu aldar sem alfarið var fallið frá hugmyndum um að virkja þennan fallega og einstaka foss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert