Crusie lenti þyrlu í garði ókunnugrar fjölskyldu

Tom Cruise lenti á þyrlu í garði ókunnugrar fjölskyldu.
Tom Cruise lenti á þyrlu í garði ókunnugrar fjölskyldu. Ljósmynd/Alison Webb

Stórleikarinn Tom Cruise kom fjölskyldu í Warwickshire í Bretlandi á óvart á dögunum þegar hann lenti á þyrlu í bakgarði þeirra. Leikarinn, sem er nú við tökur í Bretlandi á kvikmyndinni Mission: Impossible 7, þurfti að lenda í garðinum vegna tímabundinnar lokunar Coventry-flugvallar. 

Alison Webb er eigandi garðsins sem Cruise lenti í og var henni sagt að ónefnd stórstjarna sem var að verða sein hefði þurft að lenda í garðinum. Þá steig Cruise út úr þyrlunni. 

„Ég hélt það væri frekar töff fyrir krakkana að sjá þyrlu lenda í garðinum. Hann [Cruise] kom bara og fór og þetta var bara vá,“ sagði Webb í viðtali við BBC

Cruise ásamt börnum Webb.
Cruise ásamt börnum Webb. Ljósmynd/Alison Webb

Cruise stillti sér upp með fjölskyldunni á mynd og bauð jafnvel krökkunum að fara í flugferð í þyrlunni á meðan hann var á fundi. „Þetta var ótrúlegur dagur. Þetta var svo óraunverulegt, ég trúi ekki enn að þetta hafi gerst,“ sagði Webb.

Cruise hefur sést víða á Bretlandi á meðan hann hefur verið þar við tökur. Nýlega skaut hann upp kollinum á indverska veitingastaðnum Asha og pantaði sér kjúkling tikka masala. 

Mission: Impossible 7 átti að koma út í nóvember á síðasta ári en var frestað vegna heimsfaraldursins. Stefnt er að því að frumsýna hana 27. maí á næsta ári.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert