Milljóna tjón vegna vandræðagemsans Valla

Rostungurinn Valli hefur valdið töluverðu eignatjóni undan ströndum Írlands í …
Rostungurinn Valli hefur valdið töluverðu eignatjóni undan ströndum Írlands í sumar. Skjáskot/Youtube

Atlantshafsrostungurinn Valli hefur valdið talsverðu eignatjóni undan ströndum Írlands síðustu misseri. Tjónið er talið hlaupa á milljónum en ágangur Valla í leit sinni að hvíldarstað hefur orðið til þess að tveir bátar hafa sokkið. Þarlent selavinafélag hefur gripið til þess ráðs að útvega sérsmíðaða fljótandi tuðru fyrir Valla svo hann valdi ekki áframhaldandi tjóni. 

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur rostungurinn herjað á fjölda smábáta úti fyrir ströndum Cork á Írlandi. Seal Rescue Ireland, eða selavinafélag Írlands, ákvað að koma rostungnum til hjálpar með því að útvega slöngubát eða svokallaða tuðru sem Valli gæti klifrað upp á og hvílt lúinn, þunglamalegan líkama sinn. 

Fullvaxinn rostungur er stórt og mikið dýr, getur orðið um fjórir metrar að lengd og tvö tonn að þyngd. Rostungar eru mjög félagslynd dýr sem liggja jafnan þétt saman í hópum á landi og ís og gefa frá sér ýmis hljóð, sem líkjast stunum eða hrotum.

Rostungurinn virðist því eiga um sárt að binda á þessum slóðum og upplifir Valli sig líklega einan í heiminum, 4.000 kílómetra frá heimkynnum sínum.

Rostungar af Atlantshafsstofninum eru sjaldgæf flökkudýr á þessum slóðum, en Valli er talinn koma frá norska eyjaklasanum Svalbarða á Barentshafi. Fólki er ráðlagt að halda sig frá Valla en rostungar geta reynst hættulegir þrátt fyrir að virðast afar vinalegir og krúttlegir úr fjarlægð. 

Daily Mail

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka