Gangur tímans er furðulegt fyrirbæri að mati Vilborgar Víðisdóttur sem nú hefur verið búsett í eitt ár í París. Vilborg flutti til Parísar síðastliðið sumar að upplifa langþráðan draum sinn um að búa í fallegustu borg veraldar að hennar mati. Hún flutti meðal annars út til að læra tungumálið.
„Nú er liðið eitt ár síðan ég flutti út til Parísar. Ég hef tekið margar frábærar ákvarðanir í lífinu og hefur þessi ákvörðun verið ein af þeim allra bestu. Árið hefur auðvitað verið með allskonar kórónuveiruveseni þar sem við höfum þurft að loka okkur af og halda kurteisisbili sem er frábrugðið því lífi sem við þekkjum öll.
Einveran hefur verið mikil en mér hefur aldrei leiðst. Alnetið hefur haldið mér í tengingu við það fólk sem mér þykir vænst um og „Facetime“-stundirnar hafa verið frábærar með mínu fólki. Ég er þakklát fyrir það!“
Vilborg hefur eignast áhugaverða vini í borginni og er komin með góða vinnu.
„Ég var svo lánsöm að komast í kynni við frábæra franska fjölskyldu sem var að leita að manneskju til að vinna fyrir sig. Þannig að nú vinn ég fimm daga vikunnar. Starfið mitt er fjölbreytt og skemmtilegt. Það að vera í daglegum tengslum við frönskumælandi fólk hefur hjálpað mér mikið við að læra tungumálið þó ég sé ekki ennþá búin að ná tökum á frönskunni. Ég er samt bjartsýn og mjög fús að læra tungumálið.
Það fer alveg svakalega vel um mig hér í þessari frábæru borg. Ég bý í 13. hverfi og kann vel við mig hér þar sem allt er til alls. Metro-lína númerið 14 er hraðlestarlína sem ég nota mikið til að komast hratt og örugglega inn í hverfið og út úr því.“
Vilborg er mikill matgæðingur og mælir sérstaklega með matarmörkuðunum í París.
„Matarmarkaðirnir hér eru algjört æði svo ég tali nú ekki um veitingarstaðina sem eru á hverju götuhorni. Ég borða mest af grænmeti og fiski og er alltaf að prófa mig áfram í þeim málum. Það er eitthvað svo sjarmerandi að versla á þessum mörkuðum og prófa eitthvað nýtt. Ég hef verið að borða mest uppskeru hverrar árstíðar og það passar mér mjög vel. Mér hefur sýnst að fólk borði nú allan mat hér en spáir frekar vel í skammtastærðirnar sínar. Það er biðröð í bakaríið á hverjum degi og hið fræga „baguette“ er í flestum pokum. Sætabrauðið hér er himneskt og það er erfitt að láta það vera, þannig að ég hef líka verið mjög dugleg að prófa sem flest af því.“
Hvað með tískuna í París?
„Konurnar hér spá í útlitið og halda sér yfirhöfuð vel til. Það er mikið lagt upp úr því að vera sem mest náttúruleg. Í látlausum klæðnaði og ef hárið er litað þá er það í einhverjum náttúrulegum lit.
Ég fann mér frábæran hárgreiðslumann hérna sem leggur mikla áherslu á að hárið sé sem náttúrulegast. Það er alltaf frábær upplifun að fara á hárgreiðslustofuna og sjá hvað það er samt mikil vinna að lita og vesenast til að líta sem náttúrulegast út.
Svona getur lífið komið sífellt á óvart. En París er full af frábærum týpum og allskonar fólki sem er einmitt það skemmtilega við þetta allt og gleður mig mikið. Ég hef ekki upplifað mikla hjarðhegðun hér þegar kemur að útliti. Það eru þó ákveðnir hlutir sem ég sé að margar konur eiga eins. Sem dæmi um það eru ballerínuskór, kvartbuxur og þverröndóttir bolir.“
Hver er tískan þegar kemur að förðun kvenna í París?
„Förðun kvenna á mínum aldri er frekar látlaus. Rauður varalitur er þó mikið notaður. Það eru verslanir út um allt í París og tískan er mjög fjölbreytt. Ég á ekki neina uppáhaldsfataverslun ennþá en það eru svo margar frábærar verslanir sem gaman er að fara í. Það er rosalega mikið um „vintage“-búðir og margt skemmtilegt hægt að finna í þeim. Í Le Marais sem er 4. hverfi eru margar flottar þannig búðir.“
Hvað er í uppáhaldi að versla?
„Ég er svo mikil blómakona og elska að fara í blómabúðirnar hér. Þær eru algjört æði og það heillar mig mjög mikið hvað fólk er duglegt að kaupa blóm og skreyta heimilin sín með þeim. Allir þessir fallegu litir og gleði sem þeim fylgir er yndislegt að sjá.
Ég hef ekki ferðast mikið hér í Frakklandi á þessu ári mínu en ég hef farið til Bretagne tvisvar og dvalið í tvær til þrjár vikur í bæði skiptin. Það var alveg æðislegt.
Ég var á stað sem heitir Saint Cast le Guildo. Það er bær alveg við ströndina og mikið af fólki sem dvelur þar nýtur þess að vera við hafið og sigla eða vera í einhverskonar sjósporti. Svo hef ég farið í helgarferðir til Chantilly sem er bara í klukkutíma fjarlægð frá París. Síðan hef ég heimsótt Reims sem er einnig stutt frá borginni.
Það var mjög áhugavert að fara á báða þessa staði. Ég hlakka svo bara til að geta haldið áfram að skoða Frakkland þegar kórónuveirumálin verða orðin betri í heiminum.“
Vilborg er á því að París sé ævintýri líkust, í raun eins og listaverk.
„París er svo falleg og það er endalaust hægt að ganga um hana og sjá eitthvað nýtt. Að sitja á bökkum Signu, drekka kaffið í fallegum garði nú eða skoða sögufræga staði í borginni er eitthvað sem ég get mælt með.“
Hvað hefur komið mest á óvart eftir að þú fluttir út?
„Það sem hefur komið mér mest á óvart er að fólkið hér er algjörlega dásamlegt. Það hafa allir sem ég hef átt samskipti við verið hjálplegir, sem dæmi þegar tungumálið er að þvælast fyrir mér. Ég upplifi fólk mjög kurteist og vinalegt.
Það á svo sannarlega vel við mig að búa í París og ég elska það hvað borgin er lifandi. Þessi erill og þessi læti sem sumir kalla stress er eitthvað sem ég kann vel við. Dansandi fólk á torgum, veitingahúsin full af fólki, söfn og garðar út um allt og svo það auðvitað hvað borgin er falleg.
Ég er ánægð með þessa ákvörðun mína að flytja hingað og setjast hér að og ég stefni að því að geta talað frönsku skammlaust árið 2038 þegar ég held upp á sjötugsafmælið mitt hér. Ég byrja mitt annað ár hér í Frakklandi full af tilhlökkun og bjartsýni og held áfram að njóta lífsins í minni uppáhaldsborg, París!
La vie est belle!“