Um 90% kaupenda ódýrra húsa í bænum Latronico á Ítalíu eru frá Bandaríkjunum. Bærinn bauð á síðasta ári upp fjölda húsa á lágu verði og hafa Bandaríkjamenn flykkst til bæjarins. Fjöldi bæja á Ítalíu hafa gert slíkt hið sama jafnvel boðið hús á aðeins eina evru.
Í Latronico á suður Ítalíu fór þó ekki nákvæmlega sömu leið og aðrir bæir og bauð hús á aðeins hærra verði, en þó í töluvert betra ástandi. Einn viðmælanda CNN Travel, Frank Cohen, frá New Haven í Bandaríkjunum festi kaup á þremur húsum í elsta hluta bæjarins. Tvö húsanna fékk hann á um þrjár milljónir íslenskra króna en þau eru í góðu ástandi og gat hann flutt inn í annað þeirra strax.
Þriðja fékk hann á tæpa milljón íslenskra króna en það er í slæmu ástandi og þarf hann að gera það upp að stórm hluta. Mörgum þykir ansi mikið að festa kaup á þremur húsum í ítölsku bæ í einu en Cohen varð strax hrifinn af bænum.
„Ég held það sé næstum því ómögulegt að finna yndislegri eða vingjarnlegri bæ. Fólkið er bara svo gott. Við [hann og eiginkona hans Ann] getum ekki farið neitt án þess að okkur sé boðið kaffi, grappa eða Amaro Lucano. Við sofum mun betur hér en við gerðum nokkurn tíman í Bandaríkjunum,“ sagði Cohen.
Cohen var fyrsti erlendi maðurinn til að kaupa hús á tilboði í bænum og hefur verið vel tekið. Þau hjónin ætla að búa í fyrsta húsinu í um sex mánuði á ári og innrétta hitt fyrir gesti. Langtíma verkefnið er svo þriðja húsið.
Þau ætla að halda í ítalska stílinn en taka eitt herbergi í gegn og gera það amerískara. Cohen er þó gríðarlega hrifin af Ítalíu og evrópskum siðum.
„Það eru fullt af bæjum í Bandaríkjunum sem eru fimm til tíu sinnum stærri og eru bara með fimmtung af næturlífinu hér. Ég er svo feginn að sjá ekki fullt af jeppum allstaðar og enga skyndibitakeðjur. Ég er nú þegar búinn að næla mér í notaðan Fiat Panda til að keyra um þröngar göturnar,“ sagði Cohen en slíkir bílar eru töluvert smærri en amerískir trukkar frá til dæmis Ford.