Langaði að gera eitthvað nýtt og krefjandi

Ari Bragi Kárason er fluttur til Kaupmannahafnar.
Ari Bragi Kárason er fluttur til Kaupmannahafnar. Ljósmynd/Aníta Eldjárn

Tónlistarmaðurinn Ari Bragi Kárason flutti nýlega til Kaupmannahafnar með unnustu sinni,  Dórótheu Jóhannesdóttur, og eins árs dóttur þeirra, Ellen Ingu. Fjölskyldan kann vel við sig í borginni og er Ari Bragi strax komin með góð sambönd í danska jazzheiminum. 

„Við ákváðum í miðjum faraldri að gera eitthvað nýtt og krefjandi. Dórótheu langaði alltaf að fara í meira nám og mig langaði alltaf að flytja erlendis. Eftir að ég lagði skóna á hilluna sem spretthlaupari og íþróttamaður þá varð ég að búa mér til nýtt verkefni til að stefna að og hlakka til. Því miður fylgir því smá depurð og tómleiki að leggja svona skóna frá sér því þetta hefur verið svo stór hluti af lífi manns í svo mörg ár. Því var þessi ákvörðun að flytja út og færa okkur um set alveg kærkomin,“ segir Ari Bragi um ákvörðunina að flytja til Kaupmannahafnar. 

Fyrstu vikurnar í Köben hafa gengið vel. „Íbúðin okkar á æðislegum stað í Frederiksberg, veðrið hefur leikið við okkur og litla daman elskar alla fallegu garðana og leikvellina. Við erum bara í algjöru blissi.“

Ari Bragi Kárason segir Kaupmannahöfn barnvæna.
Ari Bragi Kárason segir Kaupmannahöfn barnvæna. Ljósmynd/Aníta Eldjárn

Sérðu fram á að sinna tónlistinni úti eða hvað ætlar þú að gera?

„Ég er þó nokkuð bókaður með hljómsveitinni Mezzoforte í Skandinavíu sem gerir Köben að frábærum stað til að ferðast til og frá innan Norðurlandanna. Einnig eru nokkuð stór íslensk verkefni á næsta ári sem ég er partur og því frábært að geta unnið í þeim hérna úti. Það ótrúlega gerðist líka að ég fékk hringingu frá Danish Radio Big Band (DRB) nokkrum dögum eftir að við vorum komin hingað þar sem ég var beðinn um að taka þátt í verkefni með þeim viku síðar. Mikil eldskírn fyrir mig að stökkva beint ofan í djúpulaugina með landsliði dönsku djasssenunar. Það gekk frábærlega og var æðisleg upplifun. Ég sagði einmitt við Dórótheu áður en að við fluttum að loka takmarkið hjá mér væri svo að komast að spila með DR Big Band. Atli við getum þá ekki bara flutt heim? segir Ari og hlær. 

Hvað er það við Danmörku sem heillar?

„Kaupmannahöfn er bara æðisleg borg í alla staða og í hvert skipti sem ég hef komið hingað síðustu ár hef ég alltaf sagt við mig að mig langi að prufa að búa hérna. Við elskum matarmenninguna, hjólamenninguna, tungumálið og kerfið er mjög barnvænt.“

Hefur þú áður prófað að búa í útlöndum?

„Ég bjó í fimm ár í New York-borg þegar ég var í námi. Allt öðruvísi borg heldur en Köben. Ég gæti ekki séð fyrir mér að búa í New York eins og staðan er núna en eftir að ég flutti heim úr námi hefur mig alltaf langað að flytja aftur út og stóðu nokkrar borgir fyrir valinu hjá okkur. Hugsuðum um að fara meira suður á bóginn en niðurstaðan var Köben. Ef þetta gengur ekki hér þá komum við bara heim, sé það ekki gerast alveg strax samt!“

Tónlistin er aldrei langt undan hjá Ara Braga.
Tónlistin er aldrei langt undan hjá Ara Braga. Ljósmynd/Aníta Eldjárn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert