Íslenskir ríkisborgarar geta ferðast til 180 landa án þess að þurfa til þess fyrirframfengna vegabréfsáritun. Vegabréfið íslenska situr í 12. sæti á svokallaðri vegabréfsvísitölu Henleys fyrir árið 2021.
Listi Henley nær þó ekki til þeirra ferðatakmarkana sem nú eru í gildi vegna heimsfaraldurs. Í aðfararorðum listans segir að takmarkanir síðustu 18 mánaða hafi skapað stærsta ferðalagabil í 16 ára sögu listans.
Vísitalan, eða listinn, heldur utan um lönd sem borgarar komast til með vegabréfum landa sinna án sérstakrar vegabréfsáritunar, en sem stendur sitja Asíuríkin Japan og Singapúr saman í efsta sæti listans. Þeir sem ráða yfir vegabréfi frá Japan eða Singapúr komast til 192 landa, án þess að þurfa sérstaka áritun.
Þýskaland og Suður Kórea sitja saman í öðru sæti og komast ríkisborgarar landanna til 190 landa. Finnland, Ítalía, Lúxemborg og Spánn eru í því þriðja og komast til 189 landa án áritunar.
Afganistan vermir botnsæti listans en afganskir ríkisborgarar komast til aðeins 26 landa án vegabréfsáritunar.
Listi Henley nær til 227 áfangastaða um heiminn. Hann er uppfærður í rauntíma í gegnum árið þegar nýjar reglur um vegabréfsáritanir taka gildi.