Freydís Jóna Freysteinsdóttir, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands, náði þeim merka áfanga í sumar að hafa farið í allar sundlaugar á landinu. Síðasta sundlaugin sem hún fór í var Sundlaugin á Raufarhöfn en það eru um sjö ár síðan hún fór að halda utan um hversu margar sundlaugar hún hafði heimsótt.
„Það var mjög skemmtilegt. Ég var alsæl að hafa náð þessu markmiði. Finnst ég hafa kynnst ýmsum svæðum mun betur eftir að hafa farið um allt í hinar og þessar sundlaugar. Ég hef oft tekið á mig auka króka til að fara í hinar ýmsu sundlaugar,“ segir Freydís í viðtali við mbl.is.
Freydís hefur lent í allskonar ævintýrum á leið í sund. Í sumar þurfti hún til dæmis að bíða í fimm klukkustundir eftir því að komast í sund á Hólum. „Það var mjög erfitt að komast í sundlaugina á Hólum þar sem hún er einungis ætluð starfsmönnum, gestum þeirra og nemendum. Ég var komin þangað klukkan ellefu að morgni og fékk náðarsamlegast að fara sem gestur fimm tímum síðar eða klukkan fjögur. Það var ansi löng bið,“ segir Freydís.
Áður en hún náði að komast í sund á Raufarhöfn fór hún eina fýluferð. „Ég hafði einu sinni komið áður til að fara í sundlaugina á Raufarhöfn áður en ég komst í hana. Þá vorum við, ég og maðurinn minn að ferðast um svæðið, fórum meðal annars í Ásbyrgi og að Dettifossi. Þá var 45 mínútna akstur þaðan á Raufarhöfn en þegar þangað var komið var sundlaugin lokuð vegna þess að það var einhver bilun í lögnum. Það var frekar svekkjandi.“
Freydís á ekki neina uppáhaldssundlaug enda finnst henni flestar sundlaugar sem hún hefur komið í dásamlegar. Hún á líka góðar minningar frá mörgum stöðum á landinu.
„Eitt skiptið fór ég ásamt systrum mínum og móður í sundlaug í Skagafirði sem við þurftum að taka talsverðan krók til að fara í. Þá rákumst við á grænmetissölu með albestu rófum sem við höfðum nokkurn tímann smakkað, en þær voru teknar upp úr garði þegar við keyptum þær. Sú sundlaug var reyndar ein af tveimur alminnstu sem ég hef farið í enda við tjaldstæði. Ægilega krúttleg laug.“
Eins og gefur að skilja er ekki alltaf gengið að því að komast í sund, stuttur opnunartími og bilanir, geta oft komið í veg fyrir það.
„Sundlaugin í Reykjafirði var vatnslaus þegar ég kom að henni í fyrra skiptið en í seinna skiptið var sem betur fer vatn í henni. Það er sundlaug sem er gömul og steypt úti í náttúrunni, svo er lítill skúr við hana þar sem maður getur haft fataskipti og tveir náttúrulegir pottar, hlaðnir eru fyrir ofan laugina. Dýrlegt útsýni er út á sjó frá sundlauginni og pottunum.“
Freydís hefur einnig heimsótt sundlaugina í Grímsey, sem er nyrsta sundlaug landsins. Hún er fegin að þurfa ekki að fara í þá laug aftur, en hún varð hræðilega sjóveik á leiðinni út í eyjuna.
„Sundlaugin á Seyðisfirði er líklega ein sú sérstakasta sem ég hef farið í. Sundlaugarbyggingin er á þremur hæðum. Maður gengur upp á næstu hæð til að fara í búningsklefann og í sturtu, sundlaugin er á miðhæðinni en svo fer maður niður í kjallara til að fara í potta og í sánu,“ segir Freydís.
Freydís hefur bara farið í eitt sérstakt sundferðalag til að safna sundlaugum. „Þá átti ég orðið frekar fáar sundlaugar eftir, svo ég ákvað að skreppa í sund til Fáskrúðsfjarðar og á fleiri staði. Enn einu sinni fékk ég manninn minn með og fórum við hringinn og rúmlega það á fjórum dögum og náði ég að fara í átta nýjar sundlaugar í þeirri ferð. Við gistum á skemmtilegum stöðum sem okkur hafði langað að gista á lengi og dáðumst að haustlitunum á ferðum okkar. Við sáum líka ótrúlega skemmtilegt bílasafn í þeirri ferð á Breiðdalsvík og eins gengum við að Stuðlagili á þeirri leið sem var mjög fallegt og gaman að sjá. Þessi ferð var því ótrúlega skemmtileg í alla staði,“ segir Freydís.
Freydís er ekki hætt að fara í sund þó hún sé búin að heimsækja þær allar og fer í sund um tvisvar til þrisvar í viku. „Mér finnst svo ótrúlega streitulosandi og heilandi að fara í sund.“
Með hvaða sundlaugum mælir þú helst með?
„Sundlaugum úti á landi, þar sem er rólegt og þægilegt að vera og mikil kyrrð. Til dæmis er sundlaugin á Stöðvarfirði sérlega snyrtileg og falleg, þó hún sé staðsett í litlum bæ. Svo er hægt að mæla með Lýsuhólslaug. Hún er mjög sérstök, botninn svo háll því að það er slím á botninum en það er náttúrulegt vatn í lauginni, ekki klórblandað eftir því sem ég best veit, mjög gott fyrir húðina. Sundlaug Akureyrar og Þelamerkurlaug eru sérstaklega skemmtilegar. Eins Álftaneslaug. Nú ekki er verra að það sé fallegt útsýni út á sjó þegar maður er í sundi. Má nefna í því samhengi sundlaugina á Hofsósi, úti í Hrísey, Krossaneslaug í Norðurfirði og sundlaugin á Patreksfirði.“