Köben á stórt pláss í hjarta Völu Matt

Vala Matt bjó í Kaupmannahöfn og fer þangað oft.
Vala Matt bjó í Kaupmannahöfn og fer þangað oft.

Kaupmannahöfn er í miklu uppáhaldi hjá arkitektinum og sjónvarpsstjörnunni Valgerði Matthíasdóttur, eða Völu Matt eins og hún er kölluð. Vala lærði í Kaupamannahöfn á sínum tíma og nú býr dóttir hennar og barnabörn í borginni. 

„Fyrsta ferðin mín til útlanda var þegar ég fór í fermingarferð með mömmu og pabba og bróður mínum sem fermdist á sama tíma. Við fórum til London og það var alveg ógleymanlegt því ég man svo vel eftir öllum smáatriðunum. Hótelinu, matnum, listasöfnunum og fallegu görðunum. Mamma var svo mikil listakona að hún benti alltaf okkur systkinunum á fegurðina í umhverfinu og var einnig mjög dugleg að fara með okkur á listasöfn. Og það er eitthvað sem ég bý að enn í dag,“ segir Vala um fyrstu utanlandsferðina sína. 

Vala þarf ekki að hugsa sig lengi um þegar hún er spurð út í uppáhaldsborgina sína. 

„Ég á eins og líklega flestir margar uppáhaldsborgir. Ég bjó í Kaupmannahöfn í rúm sex ár þegar ég var í arkitektaskólanum í Det Kongelige Danske Kunstakademi þar sem ég tók masterspróf í húsaarkitektúr eftir sex ára nám og útskrifaðist sem Cand.Arch FAÍ. Skólinn var staðsettur fyrir aftan Konunglega leikhúsið við Kóngsins nýtorg. Þar upplifði ég fegurð gamla arkitektúrsins í borginni á hverjum degi. Ég man hvað það var gott fyrir sálina, þannig að mér þykir vænst um Kaupmannahöfn. Nú er dóttir mín búsett þar og barnabörnin mín þannig að ég fer þangað reglulega,“ segir Vala. 

Konunglega leikhúsið við Kóngsins nýtorg. Vala var í skóla fyrir …
Konunglega leikhúsið við Kóngsins nýtorg. Vala var í skóla fyrir aftan leikhúsið. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ef ég á að nefna aðra borg sem er í sérstöku uppáhaldi þá er það New York því hún er alþjóðlegasta borg heims. Þar búa öll þjóðarbrot á einum stað og það finnst mér ótrúlega heillandi. París er líka yndisleg því þar bjó ég um tíma þegar ég var í arkitektaskólanum, en ég var svo heppin að arkitektinn Högna Sigurðardóttir útvegaði mér vinnu á arkitektastofu í París þar sem ég var í praktík. Og svo elska ég margar borgir á Ítalíu.“

Vala kann vel við sig í New York.
Vala kann vel við sig í New York. AFP

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Ég á svo marga uppáhaldsstaði á Íslandi og í öllum landshlutum, þannig að ég á mjög erfitt með að nefna einn uppáhaldsstað. En þar sem ég er fædd og uppalin á Suðurlandi þá get ég nefnt Kjósina sem einn af mínum uppáhaldsstöðum þar sem ég var þar mikið sem barn. Ég á til dæmis ævintýralegar minningar frá Meðalfellsvatni þar sem við krakkarnir fórum í bátsferðir út á vatnið með Bubba Morthens og þeim bræðrum því fjölskyldur okkar tengjast. Þar ræktaði Gréta móðir Bubba til dæmis villt jarðarber sem hún gaf okkur að smakka og þeirri upplifun gleymi ég aldrei því íslensk villt jarðarber eru alveg einstök. Ég hafði aldrei smakkað jarðarber áður, það var algjört ævintýri.“

Vala segist hafa notið þess að ferðast um Ísland í kórónuveirufaraldrinum. „Ég ferðaðist um alla landshlutana. Og það sem mér finnst svo frábært er hve gististaðir og veitingahús eru orðin fjölbreytt og flott um allt land. Hráefnið í matnum fyrsta flokks og maturinn víða ólýsanlega góður. Svo er hönnunin á mörgum hótelum og gististöðum og veitingahúsum alveg á heimsmælikvarða.“

Hvað finnst þér mikilvægt að hafa í huga þegar þú skipuleggur ferðalög?

„Það sem er eitt það mikilvægasta við að skipuleggja ferðalög er hreinlega að pakka ekki of mikið af fatnaði eða hlutum. Ferðast létt og kaupa frekar það sem þarf á staðnum. Ég hef allt of oft farið með of mikinn farangur og verið að vandræðast með of þungar töskur. Það er mjög þreytandi. Svo kemur líka alltaf í ljós að maður notar til dæmis aldrei nema brot af þeim fatnaði sem matur tekur með sér og svo er bara gaman að kaupa sér það sem þarf og koma með heim eftir ferðina.“

Vala Matt ferðalög ljósmynd/Aðsend
Vala Matt ferðalög ljósmynd/Aðsend

Menntun Völu hefur áhrif á ferðalögin hennar. „Þegar maður er húsaarkitekt að mennt gefur það augaleið að byggingarlist nýrra staða verður mjög oft fókuspunktur. Ég nýt þess að sjá flottan arkitektúr og hönnun á mínum ferðalögum, bæði í borgum og einnig úti í sveitum,“ segir hún. 

Ætlar þú að ferðast eitthvað í vetur?

„Ég er búin að bóka flug út til Kaupmannahafnar um jólin og hlakka gríðarlega til að vera með krökkunum mínum þar í dásamlegri jólastemningu. Kaupmannahöfn er alltaf ótrúlega fallega skreytt yfir hátíðirnar þannig að þar verður dásamlegt að vera um jólin.“

Hvaða staði dreymir þig um að heimsækja?

„Mig er farið að dreyma um að komast aftur til Ítalíu. Þar er allt sem hægt er að hugsa sér í skemmtilegu ferðalagi. Fegurð landslagsins, ótrúlegur arkitektúrinn og ítalska hönnunin. Og þar er hreinlega besti matur í heimi. Þó maður eigi ekki að alhæfa þá finnst mér Ítalir yfirleitt vera svo glaðlyndir að unun er að vara innan um þá. Ítalía hefur hreinlega allt sem þarf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert