SBA Norðurleið var valið fyrirtæki ársins 2021 á uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi í ár. Markaðsstofa Norðurlands veitir verðlaunin til fyrirtækis sem hefur skapað sér stekra stöðu á markaði og sem hefur unnið að upphyggingu, vörþróun og nýsköpun í ferðaþjónustu á Norðurlandi.
Engin uppskeruhátíð var haldin á síðasta ári vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Í ár var farið um vestanverðan Eyjafjörð, fyrirtæki á Dalvík og Ólafsfirði heimsótt áður en haldið var í Fljótin og þaðan á Siglufjörð. Á Kaffi Rauðku var slegið upp veislu um kvöldið og var fyrirtækjum veittar viðurkenningar fyrir störf sín.
1238: Battle of Iceland hlaut viðurkenningu sem sproti ársins. Þessi viðurkenning er veitt ungu fyrirtæki sem hefur skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. 1238: Battle of Iceland var stofnað árið 2019 og býður upp á aðstöðu fyrir bæði minni og stærri hópa. Sögusetrið 1238 er gagnvirk sýning sem færir viðskiptavini nær sögulegum stóratburðum en hefðbundnar fræðslusýningar. Með hjálp nýjustu tækni í miðlun og sýndarveruleika er þeim boðið að taka þátt í átakamestu atburðum Íslandssögunnar og beinlínis stíga inn í sögu Sturlungaaldar.
Viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustunnar hlaut Linda María Ásgeirsdóttir. Sú viðurkenning er veitt einstaklingi sem hefur haft góð áhrif á ferðaþjónustu á Norðurlandi í heild sinni og hefur starfað beint eða óbeint fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Hún hefur verið í forsvari fyrir Ferðamálafélag Hríseyjar og rekur núna veitingastaðinn Verbúð 66 í Hrísey. Einnig hefur hún setið í svæðisráði Hríseyjar fyrir Akureyrarbæ og unnið með Markaðsstofu Norðurlands.
Í ár var ákveðið að bæta fjórðu viðurkenningunni við. Hvatningarverðlaun ársins 2021 voru veitt Fairytale at Sea. Fyrirtækið var stofnað árið 2018 og býður upp á þjónustu sem byggir vel undir ímynd Norðurlands og er orðið þekkt meðal innlendra og erlendra ferðamanna fyrir einstaka upplifun.