Bangkok opnar aftur fyrir ferðamönnum

Hóteleigendur, veitingamenn og aðrir sem starfa við ferðamannaiðnaðinn í Bangkok í Taílandi eru nú í óða önn að gera allt tilbúið fyrir erlenda ferðamenn. Hinn 1. nóvember opna landamæri Taílands fyrir fullbólusettum ferðamönnum, 18 mánuðum eftir að ferðatakmarkanir tóku fyrst gildi. 

Bangkok var vinsælasti ferðamannastaður í heiminum áður en heimsfaraldurinn skall á en sérfræðingar segja að það muni taka nokkurn tíma fyrir þessa litríku borg að komast aftur á sinn gamla stall.

Árið 2019 sóttu 40 milljónir manna borgina heim. Á fyrstu átta mánuðum ársins 2021 hafa aðeins 73 þúsund ferðamenn heimsótt borgina. 

Stjórnvöld gera hvað sem þau geta til að kveikja aftur neistann hjá fyrirtækjum í ferðamennsku þrátt fyrir að um 10 þúsund smit greinist daglega í landinu og aðeins 40% þjóðarinnar sé bólusett. 

„Við vonumst til þess að ferðaiðnaðurinn muni hafa náð sér aftur á strik um mitt næsta ár,“ sagði Pongsakorn Kwanmuang, talsmaður borgarstjórnar Bangkok, í viðtali við AFP. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert