Kraftmiklar konur í Köben

Halla ásamt fjölskyldu sinni. Eiginmaðurinn, Hrannar Hólm, dóttirin, Helena Brynja …
Halla ásamt fjölskyldu sinni. Eiginmaðurinn, Hrannar Hólm, dóttirin, Helena Brynja Hólm, sonurinn, Helgi Benni Hólm og tengdadóttirin, Telma Kolbrún Elmarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Halla Benediktsdóttir, umsjónarmaður Jónshúss í Kaupmannahöfn, segir lífið þar einstaklega gott. Halla flutti til Kaupmannahafnar árið 2009 ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum en fjölskyldan unir sér vel í Danaveldi. Fljótlega eftir að fjölskyldan fluttist búferlum til Kaupmannahafnar leitaði Halla í félagsskap annarra Íslendinga á vegum Jónshúss. Lýsir Halla Jónshúsi sem eins konar félagsmiðstöð fyrir Íslendinga sem hafa fasta búsetu í borginni en í Jónshúsi er alltaf eitthvað um að vera, bæði fyrir stóra og smáa.

Jónshús er og hefur verið staður sem Íslendingar geta hist. Mikið af því sem er að gerast í Jónshúsi eru fastir viðburðir, eins og kóræfingar. Það eru til dæmis sex mismundandi kórar sem hafa aðstöðu í húsinu. Íslenskuskóli, krakkakirkja, foreldramorgnar, Garnaflækjan, AA fundir  og alls konar. En auk þess eru hér sunnudagskaffi, listasýningar, tónleikar, bingó, spilakvöld, fótboltaleikir í beinni og jólamarkaður og margt fleira,“ útskýrir Halla.

„Ég held að að ein ástæðan fyrir að Íslendingar hafi áhuga á að koma í Jónshús og taka þátt í því starfi sem er þar er að flóki finnst gott að hitta aðra Íslendinga. Inn á milli er gott að hitt fólk sem talar sama móðurmál, hitta fólk sem hefur sama húmor. Íslendingar hafa gaman af því að tala um það sem er að gerast á Íslandi. Þeir sem hafa búið lengi í Danmörku og fara ekki oft til Íslands finnst gott að  koma í Jónshús - pínu eins og að koma „heim“ þar sem allt er á íslensku. Íslenskt bókasafn og hægt að kaupa íslenskt sælgæti,“ segir hún jafnframt.

Nýjasti kórinn í Jónshúsi, Krúttkórinn.
Nýjasti kórinn í Jónshúsi, Krúttkórinn. Ljósmynd/Aðsend

Hefur haft umsjón með Jónshúsi í sex ár

Halla og eiginmaður hennar hafa haft aðsetur í Jónshúsi síðastliðin sex ár, eða allt frá því að Halla tók við sem umsjónarmaður hússins. Segist hún hafa mjög gaman að starfi sínum sem umsjónarmaður, alltaf sé eitthvað skemmtilegt sem á daga hennar drífur.

Jónshús hefur verið í eigu Alþingis í hartnær 55 ár en rekstur í húsinu hófst nokkrum árum síðar. Nafngift hússins er til heiðurs hins eina sanna Jóns Sigurðssonar, en hann og eiginkona hans, Ingibjörg Einarsdóttir, bjuggu í húsinu frá árinu 1852 og allt til æviloka. í Jónshúsi er því starfrækt sýning til minningar um þau Jón og Ingibjörgu ásamt ýmsum öðrum tilfallandi uppákomum sem þar fara fram.

Halla segir Jónshús vera á besta stað í borginni. Stutt er í alla helstu þjónustu og umlykjandi húsið eru fallegir garðar. Halla og eiginmaður hennar búa á 5. hæð hússins og því er útsýnið alveg hreint stórfínt. Jónshús er því uppáhalds staðurinn hennar í Kaupmannahöfn ásamt nokkrum öðrum.

Kaupmannahöfn er stórkostleg borg, hefur svo ótrúlega margt upp á að bjóða. Hún kemur stöðugt á óvart. Á þessum sex árum sem við hjónin höfum búið í Jónshúsi höfum við skoðað borgina mjög vel. Við búum í Jónshúsi sem er mjög vel staðsett, allt í kringum húsið eru garðar, söfn og mikið af veitingastöðum. Stutt í allt og auðvelt að ferðast um á hjóli. En ef ég á að nefna eitthvað þá er uppáhalds garðurinn minn Konges Have. Matarmarkaðurinn Torvehallere er í miklu uppáhaldi.“

Jónshús er einstaklega fallegt og vel staðsett.
Jónshús er einstaklega fallegt og vel staðsett. Ljósmynd/Aðsend

Konur öflugar í Köben

Íslenskar konur er iðnar við að halda hópinn í Kaupmannahöfn. Tveir kvennakórar eru starfandi og fá aðstöðu til æfinga í Jónshúsi. Einnig kemur hópur kvenna saman einn dag í mánuði til þess að prjóna. Prjónaklúbbur kvenna í Köben heitir Garnaflækjan og er vel sóttur að sögn Höllu.

„Það eru tveir kvennakórar sem æfa í Jónshúsi og svo er það Garnaflækjan. Þar hef ég verið með frá upphafi, en ég átti ekki frumkvæði að þessum hópi. En ég mætti á stofnfundinn sem var í febrúar árið 2010 og er búin að vera mjög virk í þessum félagsskap. Auðvitað er Garnaflækjan ekki bara fyrir konur en á þessum ellefu árum sem Garnaflækjan hefur verið starfandi þá hafa karlmenn ekki látið sjá sig. Garnaflækjan hittist alltaf einn þriðjudag í mánuði og það eru allir velkomnir,“ segir Halla og hvetur fleiri til þess að vera óhrædda við að mæta.

Árið 2014 stofnaði Halla félagið, Félag kvenna í atvinnulífinu í Danmörku, en félagið er hugsað sem traust stuðningsnet fyrir konur á þeim vettvangi. Halla fann fyrir ákveðinni þörf á auknu tengslaneti og félagsskaps á meðal annarra kvenna af sama uppruna fljótlega eftir að hún flutti til Danmerkur. Var mikill áhugi til staðar og úr varð að setja félagið á laggirnar og halda stofnfund. Meðlimir félagsins sýna hver annarri samstöðu og aðstoða hvor aðra við að takast á við ýmsar áskoranir en um það bil fjórir til átta fundir eru haldnir á ári hverju á vegum félagsins, FKA-DK.   

„Í stjórn Félags kvenna í atvinnulífinu í Danmörku eru Marta Dís Stefánsdóttir Holck, Halla Benediktsdóttir, Aldís Guðmundsdóttir, Gyða Guðmundsdóttir, Ásdís Ágústdóttir, Ásta Stefásdóttir og Jóhanna Guðrún Jóhannesdóttir,“ segir Halla og talar með eindæmum vel um þennan félagsskap. „En svo er líka félag kraftmikilla kvenna starfandi í Kaupmannahöfn sem heitir Katla Nordic. Svo konur í Köben eru mjög aktífar. Sama á hvaða aldri þær eru,“ segir hún. 

Katla Nordic var stofnað árið 2019 en ungar athafnakonur eru forsprakkar þess félagsskapar. Megin markmið Kötlu Nordic er að efla ungar íslenskar athafnakonur í Kaupmannahöfn og auka sýnileika þeirra.  

Heldurðu að þú eigir einhvern tímann eftir að flytja aftur „heim“ til Íslands?

„Mér finnst gott að búa í Danmörku, ég er í skemmtilegri vinnu svo að er ekkert í kortunum að flytja heim,“ segir Halla að lokum.

Prjónaklúbburinn Garnaflækjan að störfum.
Prjónaklúbburinn Garnaflækjan að störfum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert