Það er eitthvað heillandi við litla krúttlega bæi. Hringinn í kringum landið er slíka bæi að finna sem vert er að heimsækja í næstu hringferð. Ferðavefurinn valdi krúttlegustu bæi landsins.
Seyðisfjörður er án efa einn af krúttlegustu bæjunum á Íslandi. Regnbogagatan fyrir framan Seyðisfjarðarkirkju er vinsæll áfangastaður ferðamanna, erlendra sem íslenskra, og hefur ófáum myndum verið smellt af þar fyrir framan. Á Seyðisfirði er líka að finna mörg falleg gömul hús sem gerð hafa verið upp af hreinum fagmönnum.
Höfnin á Húsavík er ein sú krúttlegasta norðan heiða. Þar er líka að finna frábæra veitingastaði og Húsavíkurkirkja trónir fallega yfir höfninni. Inni í bænum er að finna fjölda fallegra húsa og er veitingahúsið Salka til húsa í einu slíku. Fyrir aðdáendur Sigvalda Thordarsonar er Fiskiðjusamlag Húsavíkur gleymd perla, en frá höfninni séð má sjá symmetríu Sigvalda. Á Húsavík er einnig hægt að fara í Sjóböðin sem eru með fallegt útsýni yfir Skjálfandaflóa.
Með uppbyggingu síðustu ára hefur Siglufjörður einfaldlega sprengt krúttskalann. Hótel Sigló er þar auðvitað ein af perlunum en það er við höfnina. Siglufjarðarkirkja er líka einstaklega falleg og setur svip á bæinn. Falleg gömul hús prýða bæinn og gæða hann lífi. Fjöllin setja svo punktinn yfir i-ið og ramma þennan krúttlega bæ inn.
Stykkishólmur er hið fullkomna íslenska sjávarþorp. Plássið sjálft er gullfallegt og gaman að ganga um bæinn og taka rölt um bryggjuna. Stemningin í bænum er einstök vetur, sumar, vor og haust. Þar er að finna gríðarlega góða veitingastaði á borð við Sjávarpakkhúsið.