Nú eru Bandaríkin opin á nú og því eflaust einhverjir í þeim hugleiðingum að skella sér vestur um haf og njóta alls þess sem Bandaríkin hafa upp á að bjóða. New York-borg er heillandi áfangastaður, enda flogið beint til borgarinnar frá Íslandi. Ferðavefurinn tók saman nokkur áhugaverð hótel í borginni sem þykja skara fram úr.
Þegar kemur að því að velja sér vistarverur meðan á dvölinni í New York stendur þarf að huga að ýmsu. Fyrsta sem þú þarft að ákveða er í hvaða hverfi þú vilt vera. Samgöngur í borginni eru upp á tíu svo þær ættu ekki að koma í veg fyrir að þú dveljir á þeim stað sem þú kýst.
Made Hotel
Made-hótelið er á Manhattaneyju, rétt norður af Madison Square Park og bara fimm götum frá Empire State-byggingunni. Þótt hótelið gæti ekki verið meira miðsvæðis er það rólegt og vel hægt að kjarna sig eftir langan dag á helstu ferðamannastöðum borgarinnar. Á 18. hæð hótelsins er flottur bar, Good Behaviour, þaðan sem er flott útsýni yfir Manhattan.
Soho Grand
Ef þú vilt gera einstaklega vel við þig og vera kannski svolítið grand á því, þá er Grandhótelið í Soho staðurinn fyrir þig. Hótelið er einstaklega töff í hönnun og mikill glæsileiki yfir því.
INNSIDE Nomad
Þetta hótel er sagt eitt það besta fyrir þá sem eru í sinni fyrstu heimsókn í stóra eplinu. Hótelið er í Chelsea-hverfinu og hinn fullkomni staður fyrir ferðamenn og góður fyrir þá sem eru í vinnuferð. Þaðan er frábært útsýni yfir miðborgina og á hótelinu er líkamsrækt sem er opin allan sólarhringinn.
The Wythe
Í Williamsburg-hverfinu í New York er að finna hið einstaka Wythe-hótel. Hótelið er í gamalli textílverksmiðju með gullfallegt útsýni yfir Brooklyn.
1 Hotel Brooklyn Bridge
Ef þú vilt hugsa um umhverfið ættirðu að velja þetta hótel. Á hótelinu er mikið af uppgerðum húsgögnum og endurunnum efnum. Boðið er upp á skutl á Teslu um borgina. Á þakinu er svo sundlaug þar sem þú getur baðað þig og notið útsýnis yfir borgina. Hótelið er í Dumbo-hverfi.
Standard High Line
Ef þig langar til að hafa gott útsýni frá hótelherberginu ættirðu að velja Standard High Line. Hótelið er þekkt fyrir sitt fallega útsýni en þar eru gluggar frá gólfi og upp í loft. Hótelið er í Meatpacking-hverfinu.
The Carlyle
The Carlyle-hótelið í Upper East Side þykir eitt það besta fyrir fjölskyldur á ferðalagi. Það er reyndar ekki ódýrasta hótelið í borginni en þú færð það sem þú borgar fyrir. Það er einnig mjög vinsælt á meðal stórstjarna svo þú gætir rekist á einhvern frægan meðan á dvöl þinni stendur.