Draumurinn um líf á vellinum

Yðar einlægur slær af teig niður eftir 8. holu á …
Yðar einlægur slær af teig niður eftir 8. holu á Las Colinas. (Þarf greinilega að passa aðeins vinstri olnbogann). Bert van der Toorn

Á hverju ári fara þúsundir Íslendinga til Spánar til að spila golf. Flestir fara til Alicante og spila á völlunum þar í kring. Og nóg er af þeim. En þeir eru sennilega ekki margir sem myndu sleppa því að spila Las Colinas og mögulega hefur hann tekið við hlutverki H&M sem sá staður í útlöndum þar sem líklegast er að þú rekist á Íslending.

Ég þurfti ekki að hugsa mig um lengi þegar mér bauðst að blanda mér í hóp erlendra golfblaðamanna sem boðið var á svæðið í tilefni af tíu ára afmæli þess. 

Las Colinas er í um 50 mínútna fjarlægð frá flugvellinum í Alicante, sem Íslendingar þekkja vel. Svæðið er lokað og strax þegar ekið er inn á það er ljóst að hér var ætlunin að bjóða upp á lúxus. Við aðkomuna er margt sem minnir frekar á sambærileg svæði í Bandaríkjunum en á Spáni. Klúbbhúsið er stórt og tignarlegt og við það þrír mjög góðir veitingastaðir, heilsurækt og fleira. Á svæðinu eru líka tennisvellir, strandbar og margt fleira.

15. hola er stórskemmtileg par 5 hola með vatni allt …
15. hola er stórskemmtileg par 5 hola með vatni allt um kring

Það er líka merkilegt að hafa í huga að þetta er ekki gamall völlur. Þegar hann var opnaður fyrir rúmlega tíu árum þótti hann strax með þeim bestu. Síðan hefur svæðið verið valið það besta á Spáni og völlurinn sá besti þar í landi fimm sinnum. Sem er ekki amalegt þegar litið er til fjölda frábærra valla á Spáni. 

Völlurinn sjálfur er ekki sá léttasti. Fyrstu tvær holurnar eru langar og erfiðar. Það þarf gott teighögg á þeim báðum til að koma sér á réttan stað og þá er eftir að slá upp á upphækkaða flöt. Eftir það verður þetta reyndar heldur léttara og flestar holurnar eru sanngjarnar og bjóða upp á mikla möguleika.

Fjölbreytnin á vellinum er líka heillandi. Það er eins og að vera á tveimur völlum að slá niður í dalinn á 8. holu með trjám allt í kring eða 15. holu með stóru vatni sem umvefur flötina. Alls staðar eru svo glompur sem bíða eftir því að grípa ónákvæm högg. Völlurinn er ekki sá léttasti en hann er sanngjarn.

Svæðið er hátt í 200 ferkílómetrar en markmiðið hefur verið að hafa byggð ekki of þétta. Stefnt er að því að byggja 1.800 íbúðir og rúmlega helmingurinn er þegar kominn. Nokkuð margir Íslendingar eiga eignir á svæðinu og Jon Brook, framkvæmdastjóri golfvallarins,  segir að Íslendingar séu mikilvægur hluti af markaðssetningu þeirra. Það kemur ekki á óvart því rúmlega 30 íslendingar eiga íbúðir eða hús á svæðinu og á hverjum degi eru mjög margir sem koma og spila.

Horft til baka frá 1. holu. Þar mega menn þakka …
Horft til baka frá 1. holu. Þar mega menn þakka fyrir par.

Þegar litið er til ferðalaga Íslendinga virðist sem flestir hafi áhuga á suðrænu Kanaríeyjunum en Aðalheiður Karlsdóttir, fasteignasali hjá Spánareignum, segir að margir vilji frekar vera á meginlandinu. Þaðan sé aðeins nokkurra tíma akstur á spennandi skíðasvæði, vínræktarekrur og til margra merkustu borga Spánar. Svo er ekki nema nokkurra mínútna akstur á ströndina. Hún segist finna fyrir vaxandi áhuga Íslendinga á svæðinu og sérstaklega í ljósi þess að mikilvægt sé að tryggja sér eignir á svæðinu í ljósi þess að framboðið þar sé takmarkað.

Það sem er merkilegt við Las Colinas er uppbyggingin, sem hefur verið mjög hröð. En ekki síður að öll húsin eru byggð í sama stíl. Hvít, stílhrein og snyrtileg. Allt virkar nýtt og hreint. Sem það reyndar er. 

Eins og gefur að skilja er þetta ekki ódýrasta svæðið á Spáni. Íbúðir hér kosta frá 320 þúsund evrum og upp úr. Verðlagið fylgir nokkurn veginn stærð og útsýni. Dýrustu eignirnar eru við golfvöllinn og sú dýrasta gnæfir yfir allt svæðið og fer á litlar fjórar milljónir evra. 

Miguel Ángel Jiménez hannaði æfingasvæðið og Troon golf sér um viðhaldið á vellinum. Það er sennilega það sem flestir taka eftir. Yfir vellinum er annað yfirbragð en fólk á stundum að venjast á spænskum völlum. Hugsað er út í hvert smáatriði og mikil vinna lögð í að halda vellinum snyrtilegum.

Slagorðið er „Un mundo aparte“ eða heimur út af fyrir sig. Það er reyndar ekki erfitt að staðfesta það. Skipulagið er mjög gott og þjónustan algjörlega til fyrirmyndar. Það má hugsa sér margt verra í lífinu en að gleyma sér á Las Colinas.

https://lascolinasgolf.com/en/

Klúbbhúsið er sérlega glæsilegt og tekur vel á móti þér.
Klúbbhúsið er sérlega glæsilegt og tekur vel á móti þér.
Nokkur af húsunum við 15. brautina.
Nokkur af húsunum við 15. brautina.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert