Fallegasta bókabúð í heimi?

Í borginni Porto í Portúgal má finna eina fallegustu bókabúð …
Í borginni Porto í Portúgal má finna eina fallegustu bókabúð heims. Borgin sjálf er afar sjarmerandi. mbl.is/Ásdís

Bókabúðin Livraria Lello lætur ekki mikið yfir sér að utan; er kramin á milli annarra bygginga á götu einni í miðbæ Porto, þeirrar fallegu borgar. En þegar inn er komið er ekki laust við að maður taki andköf; bókabúðin, sem oft er talin ein sú fegursta í heimi, stendur sannarlega undir þeim titli.

Ótrúlegt handverk blasir við og greinilegt er að nostrað hefur …
Ótrúlegt handverk blasir við og greinilegt er að nostrað hefur verið við hvern krók og kima.

Að koma þar inn er líkt og að ganga inn í listaverk eða kvikmyndasett í ævintýramynd, enda hefur gjarnan verið talað um að hún hafi verið innblástur rithöfundarins J.K. Rowling að útliti Hogwarts-galdraskólans í frægu bókunum um Harry Potter. Því miður hefur rithöfundurinn nýlega tjáð sig um að hún hafi aldrei stigið fæti inn í bókabúðina, sem er afar sérstakt þar sem hún bjó í Porto í tvö ár. Hver myndi ekki vilja sjá þessa bókabúð!

Bókabúðin er afar falleg að utan en enn fallegri að …
Bókabúðin er afar falleg að utan en enn fallegri að innan.

Yfir hundrað ára gömul

Livraria Lello er yfir hundrað ára gömul, stofnuð í lok nítjándu aldar af bræðrunum José og António Lello og var upphaflega bókafyrirtæki. Bókabúðin sjálf var svo stofnuð 13. janúar 1906 í núverandi mynd og var gerð upp fyrir nokkrum árum, enda sjálfsagt orðin lúin. Útskornir veggir, hillur og stigar með rauðum teppum blasa við ásamt mósaíkþakglugga til að hleypa inn smá birtu í þessa töfraveröld bóka.

Tröppur hlykkjótta stigans eru málaðar dökkrauðar og fara vel við …
Tröppur hlykkjótta stigans eru málaðar dökkrauðar og fara vel við dökka handriðið.

Selt er inn í búðina og gjarnan röð fyrir utan. En fyrir þá sem tíma að borga 15 evrur en ekki fimm er hægt að sleppa röðinni. Sem betur fer er fáum hleypt inn í einu og nógur tími til að njóta án þess að vera í mannþröng.

Erfitt er að lýsa bókabúðinni nánar því orð duga varla. Myndirnar tala sínu máli og segja meira en þúsund orð!

Nánar má lesa um bókabúðina í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert