Vitlaus beygja endaði sem stórkostleg ferð

Helga Lára Halldórsdóttir er mikill útivistargarpur. Hér er hún í …
Helga Lára Halldórsdóttir er mikill útivistargarpur. Hér er hún í miðnæturgöngu í Múlagljúfri. Ljósmynd/Aðsend

Helga Lára Halldórsdóttir hjúkrunarfræðingur er með brennandi áhuga á útivist og ferðalögum. „Mamma var alltaf mikið í útivist þegar ég var lítil og dró okkur fjölskylduna oft með. Pabbi hefur einnig mikinn áhuga á jarðfræði þannig að óhjákvæmilega smitaðist ég af þessari útivistarbakteríu,“ segir Helga.

Breyttust ferðavenjur þínar á einhvern hátt í heimsfaraldrinum?

„Já, ég hef einungis ferðast um Ísland eftir að heimsfaraldurinn mætti með látum og notið þess. Fólk er hvatt til þess að skoða meira en bara sundlaugarbakkann. Skoða náttúruna, kynna sér menninguna, gista á minni hótelum í stað þekktra hótela.“

Hvað gefur það þér að vera uppi á fjöllum?

„Það er bara dásamlegt. Maður verður meðvitaður um hversu mikil forréttindi það eru að geta gengið um landið okkar, notið stórbrotinnar náttúru og andað að sér fersku fjallaloftinu. Mér finnst líka allt brasið sem fylgir fjallamennsku og gönguferðum svo skemmtilegt. Ég verð líka alltaf mjög meðvituð um hvað íslensk náttúra er dýrmæt og vona að í framtíðinni verði verndun hennar alltaf höfð að leiðarljósi.“

Á Hornströndum. Hér er Helga Lára ásamt Þórdísi Þorkellsdóttur.
Á Hornströndum. Hér er Helga Lára ásamt Þórdísi Þorkellsdóttur. Ljósmynd/Jóni Gunnari Kristjónssyni

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Það er erfitt að velja einn uppáhaldsstað. Á erfitt með að gera upp á milli Vestfjarða og Austfjarða, báðir landshlutar hafa upp á svo mikið að bjóða þegar kemur að útivist og náttúrufegurð. Svo er Þórsmörk alltaf í miklu uppáhaldi, dásamlegt að koma þangað hvort sem það er á fæti eða í bíl.“

Hver er eftirminnilegasta ferð sem þú hefur farið í á Íslandi?

„Í ágúst síðastliðnum fór ég í sex daga gönguferð um Hornstrandir í einmuna blíðu. Algjörlega ógleymanleg ferð með frábærum ferðafélögum. Fegurðin á Hornströndum er ótrúleg og nánast draumkennd.“

Hælavík á Hornströndum.
Hælavík á Hornströndum. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú einhvern tímann komið þér í vandræði?

„Ég hef nokkrum sinnum sloppið naumlega með skrekkinn. Það sem kemur fyrst upp í hugann var þegar við tókum vitlausa beygju í gönguferð inn í Landmannalaugar. Dagsleið sem átti að vera um 16 kílómetra löng varð að rúmum 30 kílómetrum, ekki með nægan mat eða vatn. En útkoman varð ein fallegasta gönguleið sem ég hef gengið í stórkostlegu veðri með fjallasýn yfir hálendið. Þetta var lán í óláni. Við vorum heppnar að enda í Landmannalaugum að skrælna úr þorsta. Svo hef ég oftar en einu sinni lent í hálfgerðri sjálfheldu á fjöllum en það hefur blessast hingað til.“

Áttu upphækkaðan jeppa? 

„Nei, en það er ofarlega á óskalistanum. Að geta skotist inn á hálendið hvenær sem er á góðum jeppa væri algjört draumalíf. Maður þarf ekki að eiga allt það flottasta en það er klárlega gott að eiga góðan búnað sem endist vel. Þar sem við búum á Íslandi er mikilvægt að eiga góðan vatns-og vindheldan fatnað og hlý undirföt. Góðir göngusokkar og buffið eru algjör lykilatriði þegar stunduð er útivist og „nógu ljótar“ tevur.“

Í tjaldinu.
Í tjaldinu. Ljósmynd/Aðsend

Eru allir þínir vinir þínir í útivist? 

„Nei ekki allir, en það er dásamlegt að njóta útivistar með góðum vinum. Í mörgum af þeim lengri ferðum sem ég hef farið í hef ég þekkt fáa en maður er fljótur að kynnast alveg ótrúlega skemmtilegu fólki.“

Ætlar þú að fara í ævintýraferðir í vetur líka?

„Já, er ekki komin nógu vel inn í vetrafjallamennskuna en næst á dagskrá er að fjárfesta í fjallaskíðum. Ég er mjög spennt að komast betur inn í það sport. Mér finnst líka mjög gaman að fara á gönguskíði og hefði gaman af því að fara í slíkar ævintýraferðir, hérlendis og erlendis.“

Á fjöllum.
Á fjöllum. Ljósmynd/Aðsend

Hvert dreymir þig um að fara? 

„Innanlands er gönguferð um Lónsöræfi næsta draumaferðalag með góðum vinum. Það væri líka algjör draumur að komast einhvern tímann í fjallaskíðaferð á Hornstrandir með Aurora Arktika. Mig dreymir um að heimsækja svo marga staði erlendis að ég gæti skrifað heila ritgerð um það. Til dæmis hefur mig lengi langað til Patagoniu. Af myndum að dæma er það stórkostlegur staður. Mig dreymir einnig um ferðalag um þjóðgarða vesturstrandar Bandaríkjanna og Kanada. Síðan væri líka æðislegt að komast í góða skíðaferð í Aplana eða til Japans.“

Helga segir að íslensk náttúra sé dýrmæt.
Helga segir að íslensk náttúra sé dýrmæt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert