Breski leikarinn Greg Wise rifjar upp ferð sína til Íslands fyrir margt löngu í ferðablaði Sunday Times. Hann var í brúðkaupsferð með Emmu Thompson og maturinn og landslagið er þeim minnisstætt.
„Ég var í brúðkaupsferð með Em og hugsaði allt í einu: „Ég verð að fá mér hross!“ Við vorum í Reykjavík þar sem íslenskir smáhestar eru á matseðlinum. Ég fékk mér líka lunda. Mér fannst ég vera mjög óþekkur, að borða þennan fallega páfagauk úthafsins, en allir gera þetta. Þetta er eins og kjúklingur með fiskibragði.
Ég elskaði landslagið á Íslandi, sem líktist einna helst tunglinu. Það var ólíkt öllu sem ég hef séð á ævinni. Gufustrókar risu úr jörðinni og gróðurinn náði sjaldnast upp fyrir hné. Við ferðuðumst um í risastórum trukk og sáum allt þetta hraun. Við sáum hinn stórkostlega Gullfoss og létum líða úr okkur í Bláa lóninu. Það var bjart allan sólarhringinn og það var ótrúlegt hversu yndisleg tilfinning það var,“ segir Wise.
Wise og Thompson hafa verið gift í tæp tuttugu ár og eiga tvö börn.