Útlit er fyrir að hótel í borginni Betlehem verði ekki þétt bókuð fyrir jólin í ár vegna Ómíkrón-afbrigðis kórónuveirunnar. Í venjulegu árferði sækir fjöldi ferðamanna borgina heim um jólin, en kristnir menn telja borgina vera fæðingarstað Jesú Krists.
Vonir stóðu til að fjöldi ferðamanna myndi leggja leið sína til borgarinnar í ár eftir að ísraelsk stjórnvöld tilkynntu að þau myndu opna landið fyrir erlendum ferðamönnum 1. nóvember. Ísraelsk stjórnvöld stýra því hverjir komast til borgarinnar, en hún er á Vesturbakkanum.
Það entist þó aðeins í mánuð því eftir að Ómíkron-afbrigðið greindist fyrst hertu stjórnvöld reglur á landamærum.
„Við bjuggumst við að fylla um 70% herbergjanna yfir jólin, en nú hafa allir ferðamenn afbókað ferðir sínar,“ sagði Agustine Shomali, hótelstjóri á Ararat-hótelinu í Betlehem. Þegar fréttirnar bárust að erlendir ferðamenn gætu aftur komið til Betlehem tóku starfsmenn hótelsins til við að þrífa og gera herbergin, sem staðið hafa auð í að verða tvö ár, tilbúin.
Shomali segir þau vera að leita að von í myrkrinu en það sé mjög erfitt. Þau þurfi að reiða sig á innlenda ferðamenn en aðeins nokkur hótelherbergi séu bókuð yfir jólin.
Ararat-hótelið er ekki það eina í Betlehem sem mun standa autt í ár heldur flestöll hótel í borginni.
Fyrir heimsfaraldurinn sóttu þrjár milljónir ferðamanna borgina heim á ári. Um fimmtungur borgarbúa starfar við ferðaþjónustu á einn eða annan hátt og hefur hlutfall atvinnulausra í borginni verði um 35% í heimsfaraldrinum.