Aðeins sex mega koma saman á Tenerife

Aðeins sex mega koma saman á Tenerife þegar nýjar sóttvarnareglur …
Aðeins sex mega koma saman á Tenerife þegar nýjar sóttvarnareglur taka gildi á miðnætti í kvöld. AFP

Heimastjórn Kanaríeyja ákvað í gær að eyjarnar Tenerife og Gran Canaria yrðu færðar upp á sóttvarnastig þrjú. Ákvörðunin var tekin í kjölfar þess að metfjöldi smita greindist tvo daga í röð, þriðjudag og miðvikudag, á öllum eyjunum. Var þetta mesti fjöldi smita sem greinst hefur þar frá upphafi faraldursins. Á miðvikudag greindust 1.207 smit á eyjunum öllum. Canarian Weekly greinir frá.

Hertar sóttvarnaaðgerðir taka gildi á miðnætti í kvöld. Þá mega aðeins sex koma saman, hvort sem er í heimahúsi eða á veitingastöðum.

Veitingastaðir mega taka á móti helmingi af leyfilegum hámarksfjölda á útisvæði og aðeins fjórðungi innanhúss. Veitingastaðir og skemmtistaðir þurfa að loka klukkan tvö eftir miðnætti. Þá er tveggja metra regla í gildi og grímuskylda í verslunum og í almenningssamgöngum. 

Sólarstrendur mega aðeins taka á móti helmingi af leyfilegum hámarksfjölda og sundlaugar þriðjungi. 

Alls hafa 78 greinst með Ómíkron-afbrigði veirunnar á öllum eyjunum en flest smitin hafa greinst á Tenerife, alls 65. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert