Kviknaði í veitingastaðnum á aðfangadag

Siggi Hlö eyddi jólunum á Tenerife.
Siggi Hlö eyddi jólunum á Tenerife. Morgunblaðið/RAX

Útvarpsmaðurinn Sigurður Hlöðversson, eða Siggi Hlö eins og hann er oftast kallaður, er staddur á Tenerife um þessar mundir ásamt fjölskyldu sinni. Segir hann varla þverfótað fyrir Íslendingum á eyjunni en margir kjósa að eyða jólum og áramótum utan landsteinanna og hefur Tenerife verið einn vinsælasti áfangastaðurinn hingað til.

„Það er alveg snarfurðulegt ástand hérna. Þetta er nánast því eins og að vera heima. Mér er sagt að það séu um það bil 5.000 Íslendingar hérna á eyjunni núna,“ segir Siggi. „Ég get vel trúað því. Við fórum út að borða á Þorláksmessu og veitingastaðurinn var troðfullur af Íslendingum. Það voru tveir þarna inni sem voru ekki Íslendingar,“ útskýrir hann.

Siggi Hlö segist vera mikið jólabarn og kann best við sig á heimaslóðum yfir hátíðirnar. Annað veifið í gegnum tíðina hefur hann þó látið undan og haldið jólin í útlöndum. Vanalega hafa jólin hans Sigga snúist um samverustundir með fjölskyldunni, hvar sem hún hefur verið stödd í heiminum. Sú hefð hefur verið að fjölskyldan kemur saman, prúðbúin, og borðar góðan mat, eins og tíðkast hjá mörgum öðrum fjölskyldum.

„Ég hef stundum gefið eftir að vera erlendis um jól en ég er rosalega mikill jólakarl,“ segir hann. 

Lagarto í ljósum logum

Á aðfangadag lenti fjölskyldan í heldur óvæntri uppákomu þegar Siggi fékk símtal um miðjan aðfangadag frá fimm stjörnu veitingastaðnum Lagarto Brasserie sem stendur við El Cabezo-ströndina á Tenerife. Fjölskyldan hafði haft áform um að borða jólamatinn þar og höfðu bókað borð með margra mánaða fyrirvara en það kviknaði í staðnum á aðfangadag.

„Það voru allir búnir að dressa sig upp. Við vorum öll tilbúin að fara á veitingastaðinn þegar það er hringt og okkur sagt að veitingastaðurinn stæði bara í ljósum logum þarna. Þetta var svona klukkutíma áður en við vorum að fara að leggja af stað sko, en ég veit svo sem ekkert hversu mikill eldur þetta var eða hversu mikið tjón hlaust af þessu. Þetta var nú meira fjörið,“ segir Siggi.

Siggi segir ekki hafa verið hlaupið að því að fá borð fyrir fjölskylduna á öðrum veitingastað á eyjunni á þessum tíma enda eyjan umsetin af ferðamönnum og allt orðið uppbókað fyrir mörgum mánuðum. 

„Þarna sáum við fyrir okkur að geta gert mjög vel við okkur á aðfangadegi en svona fór það. Við enduðum á að borða inni í einhverri verslunarmiðstöð hérna á svæðinu. Öll uppábúin og fín. Við fundum einhvern ítalskan stað og reyndum að gera gott úr þessu öllu saman. Enda lítið annað að gera en að hlæja bara að þessu. Ekki að óförum veitingastaðarins heldur bara að okkur að lenda í þessu. Við lifðum þetta alveg af og brostum bara og vonum að enginn hafi slasast eða mikið tjón hlotist af,“ segir stuðboltinn Siggi Hlö. 

„Það elta mig ekki uppi mikið af vandræðum. Vanalega er það bara stuð og fjör sem eltir mig,“ segir Siggi og hlær. 

Allt í lagi að ferðast 

Siggi Hlö og eiginkona hans, Þorbjörg Sigurðardóttir, hafa rekið ferðaskrifstofuna Visitor í meira en áratug. Siggi hefur mikla þekkingu og reynslu af hópferðum en hann hefur verið fararstjóri og skemmtikraftur í slíkum ferðum til fjölda ára. Siggi segir árið í ár hafa sett mikið skarð í rekstur ferðaskrifstofunnar en heimsfaraldurinn á þar allan hlut að máli.

„Þetta er búið að vera furðulegt ár. Það kom einhver smá ferðagluggi og við náðum að fara með nokkra hópa en svo lokaðist allt aftur. Það spáir enginn í að ferðast þegar smittölur eru yfir 200. Þetta ár er ekkert spes í mínum sögubókum,“ segir Siggi. „Svo er ég skemmtikraftur og það hefur ekki haft mikið upp á sig núna. Eina sem hefur haldið sér er útvarpið. Ég missti úr einn þátt því ég var í einangrun,“ segir hann en Siggi veiktist af kórónuveirunni í október síðastliðnum. 

„Þetta var svona frekar skæð „man-flu“ eins og maður segir. Ég lét svolítið stjana við mig en ég hef alveg náð mér að fullu. Maður verður bara að halda áfram að passa sig vel svo hin afbrigðin nái manni ekki.“ 

Siggi segir jafn miklar líkur á því að smitast heima á Íslandi eins og úti í heimi. Í rauninni sé óþarfi að óttast það að ferðast.

„Spánverjinn passar vel upp á sóttvarnir. Hér er byrjað að þrífa allt klukkan sex á morgnana áður en fólk fer á stjá. Það er grímuskylda alls staðar þannig að Spánverjinn reynir að gera sitt til að halda þessu í skefjum. Ég mæli með því að fólk hætti ekki að ferðast. Við verðum að halda áfram að lifa lífinu. Bara muna að fara varlega og hver og einn ber ábyrgð á sér,“ segir Siggi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert