Bandarísk kona, Marisa Fotieo, upplifði afar sérstakar aðstæður á leið sinni til Íslands frá Michigan nokkrum dögum fyrir jól þegar hún greindist jákvæð fyrir kórónuveirunni í miðju flugi. Konan sat um borð í flugvél Icelandair hinn 20. desember síðastliðinn þegar hún skyndilega fór að finna fyrir óþægindum í hálsi og öðrum einkennum sem svipaði til kórónuveirunnar. Fréttamiðillinn People greindi frá.
Konan hafði nokkur heimapróf meðferðis á ferðalaginu, öryggisins vegna. Það kom sér vel því í miðju fluginu ákvað konan að fara inn á salerni flugvélarinnar og taka eitt próf á sjálfri sér.
„Ég tók hraðpróf inni á klósetti og eftir tvær sekúndur höfðu tvær línur myndast. Sem gefur til kynna að um jákvætt próf sé að ræða,“ sagði Fotieo í viðtali við fjölmiðla vestanhafs.
Fotieo brá sjálfviljug á það ráð að einangra sig frá öðrum farþegum vélarinnar og ákvað að dúsa inni á salerni það sem eftir væri ferðarinnar. Í fimm klukkustundir einangraði hún sig þar en hún bar flugþjónum Icelandair vel söguna og þá sérstaklega Ragnhildi Eiríksdóttur flugfreyju.
„Það voru 150 farþegar í fluginu og ég vildi alls ekki smita þá alla,“ sagði konan ákveðin. „Ragnhildur „Rocky“ Eiríksdóttir sá alveg til þess að mig skorti ekki neitt í fluginu. Allt frá mat og drykk og svo athugaði hún stöðugt hvernig ég hefði það og fullvissaði mig um að allt yrði í lagi,“ sagði Fotieo.
Flugfreyjan Ragnhildur Eiríksdóttir er svo sannarlega með hjartað á réttum stað því þegar vélin var lent og konunni hafði verið komið á sóttvarnarhótel á vegum Rauða krossins beið hennar óvæntur glaðningur frá Ragnhildi.
„Hún hafði komið með blóm og lítið jólatré handa mér og ljósaseríu sem ég gat hengt á það,“ útskýrði Fotieo. „Þetta var svo fallegt af henni. Hún er alger engill,“ sagði Fatieo sem hefur verið dugleg við að deila myndskeiðum úr einangruninni á Íslandi á tiktokreikningi sínum.
Ferðaáætlanir farþega á tímum heimsfaraldurs geta snarlega tekið u-beygju. Sér í lagi nú á dögum þar sem Ómíkron-afbrigðið breiðist hratt út um heimsbyggðina. Samkvæmt tölum frá alþjóðlega flugrakningarfyrirtækinu Flight Aware voru 3.800 flugferðir afbókaðar á aðfangadag og jóladag vegna Covid-19.