Vala elskar að ferðast með allt á bakinu

Valgerður Húnbogadóttir í sínu náttúrulega umhverfi, í útilegu að elda …
Valgerður Húnbogadóttir í sínu náttúrulega umhverfi, í útilegu að elda á prímusi langt frá byggðum manna.

Valgerður Húnbogadóttir, lögfræðingur og leiðsögumaður hjá Ferðafélagi Íslands, veit fátt betra en að halda út í óbyggðirnar með allt sem hún þarf í bakpokanum. Valgerður hefur nú sett saman námskeið þar sem hún kennir og þjálfar fólk í að fara í fjallgöngur með allt sem það þarf á bakinu. Það er nefnilega ýmislegt sem fólk þarf að tileinka sér til að halda út í óbyggðir eða á fjall. 

„Verkefnið er hugsað fyrir alla sem vilja byrja snemma að búa sig undir göngur með allt á bakinu í sumarið. Það hefst í mars þannig að þátttakendur fá góðan tíma til að búa sig smám saman undir göngusumarið mikla í góðum félagsskap,“ segir Vala í samtali við mbl.is. 

Það verða tvær æfingaferðir þar sem farið verður í útilegu með allt á bakinu í nágrenni Reykjavíkur, ein í upphafi verkefnisins og ein í lokin. Þess á milli verður farið í styttri göngur.

Af hverju heillaðist þú af ferðum þar sem þú ferðast um með allt á bakinu?

„Mig dreymdi alltaf um að fara í langa leiðangra og klífa há fjöll en það varð aldrei neitt úr því. Ég var í krefjandi starfi og komin með þrjú börn. Ég ákvað þess vegna að fara frekar í örævintýri með allt á bakinu í útjaðri Oslóar þar sem við bjuggum. Þá pökkuðum við fjölskyldan öllu sem við þurftum næsta sólarhringinn í bakpoka og gengum allt frá 4-15 km inn í næsta skóg og aftur heim daginn eftir. Þessi örævintýri gáfu mér svo mikla upplifun að þau urðu að mínum leiðöngrum. Síðar hef ég farið bæði í styttri og lengri ferðir með og án barna.“

Í lýsingu námskeiðsins segir Vala að það verði sérstaklega farið yfir algeng mistök þegar pakkað er fyrir gönguferð með allt á bakinu.

„Mistök eru að mínu mati óumflýjanleg í þessu samhengi. Ég er nýkomin heim úr aðventuferð með vinkonum mínum með allt á bakinu þar sem við tjölduðum, borðuðum piparkökur og drukkum jólaglögg. Við gerðum allar einhver mistök í ferðinni. Það er af mistökunum sem við lærum mest og jafnvel þótt við séum búnar að fara í ótal ferðir saman þá gerum við þau enn og munum gera bæði ný og sömu mistökin aftur. Mistökin kenna okkur að búa okkur betur undir komandi ævintýri,“ segir Vala.

Það er að ýmsu að huga að þegar kemur að …
Það er að ýmsu að huga að þegar kemur að því að ferðast með allt á bakinu.

Hringir í veðurfræðing ef þess þarf

Þegar kemur að því að búa sig undir fjallaferð eða útilegu í óbyggðum fylgist Vala gríðarlega vel með veðurspám. „Svo hringi ég í uppáhaldsveðurfræðinginn minn, Elínu Björk Jónasdóttur, ef ég er í vafa. Ég læt alltaf einhvern nákominn vita hvert ég er að fara og hvað ég ætla að vera lengi og hvenær þessi aðili eigi að hringja í björgunarsveitirnar ef hún eða hann hefur ekki heyrt frá mér. Ef ég er að fara á nýjan stað þá er ég búin að liggja lengi yfir kortum og bókum um svæðið og kynni mér það eins vel og hægt er. Ein mikilvægasta reglan er að ég tek alltaf mjög skemmtilegt fólk með mér sem kemur mér auðveldlega til að hlæja og sem þolir að hanga með mér í marga sólarhringa án þess að fara í sturtu,“ segir Vala.

Hvernig er ferðahaustið 2021 búið að vera hjá þér?

„Við vinkonurnar höfum farið saman í útilegur með allt á bakinu að minnsta kosti einu sinni í mánuði og stundum oftar. Á afmælinu mínu fór maðurinn minn með mér í útilegu en það samþykkir hann að gera einu sinni til tvisvar á ári. Það sem stóð upp úr hjá honum var reyndar ekki nótt með mér í tjaldi heldur að við heyrðum í hagamús. Hann stökk út úr tjaldinu til að dást að henni og reyndi svo að mata hana án árangurs. Ég varð eiginlega frekar afbrýðisöm og fannst að músin hefði getað valið annan dag en afmælisdaginn minn til að heilla manninn minn svona upp úr fjallgönguskónum.“

Hvaða gönguferðir eru búnar að standa upp úr hjá þér á árinu?

„Hornstrandir. Það keppir enginn staður við Hornstrandir í mínu hjarta. Ég fór með Rannveigu vinkonu minni í göngu frá frá Hornvík til Hesteyrar með þunga bakpoka og við gistum í tjöldum. Við erum svo ólíkar en samt svo líkar og getum bæði hlegið og grátið saman. Ég pakkaði 16 kílóum og hún 22 kílóum. Ég var mjög hneyksluð á öllu dótinu sem hún tók með, meira að segja snyrtiveski. En maður veit jú aldrei hvenær ástin bankar upp á tjalddyrnar ... það gæti alveg gerst á tjaldsvæðinu í Hlöðuvík. En ég var ekki eins hneyksluð þegar hún gat endalaust dregið upp dýrindis osta og kex þegar ég var ennþá svöng eftir fátæklega nestið mitt.

Ég fékk líka eitt skemmtilegasta hlutverk sem ég hef fengið á starfsævinni í sumar. Það var að vera fararstjóri fyrir Ferðafélag barnanna á Laugaveginum ásamt manninum mínum og börnum. Hópurinn sem kom með okkur var svo skemmtilegur og börnin voru svo hugmyndarík og léku leiki og sungu nánast alla leiðina. Auðvitað var gangan líka krefjandi en ég held að við höfum öll gleymt því um leið og við sáum skálann í Þórsmörk.“

Hvaða ferðir ertu með planaðar á næsta ári?

„Ég og Rannveig ætlum að leiðsegja tvær ferðir á Hornstrandir með Ferðafélagi Íslands. Önnur þeirra er kvennaferð í Hornvík sem við erum sérstaklega spenntar fyrir. Við höfum verið að vinna mikla undirbúningsvinnu en áhersla verður lögð á sögu kvenna á svæðinu og að njóta. Svo munum við einnig leiðsegja ferð með allt á bakinu frá Hornvík til Hesteyrar fyrir þá sem vilja alvöru áskorun og ævintýri en sú ferð endar á súpu í Læknishúsinu á Hesteyri. Ef einhverja vantar hugmyndir að ævintýrum fyrir næsta sumar hvet ég þá til að heimsækja fi.is. Ég er að vona að ég komi að einu ævintýri fyrir mig sjálfa líka en ég er ekki tilbúin að opinbera það ennþá. Þið verðið bara að fylgjast með.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert