Harpa Melsteð sjúkraþjálfari, worldfit-þjálfari og fyrrverandi landsliðskona í handbolta, er dugleg að ferðast. Hún nýtti tímann á meðan utanlandsferðir voru ekki á dagskrá í heimsfaraldrinum og var dugleg að ferðast innanlands.
„Ég elska skíðaferðir, ævintýraferðir þar sem maður upplifir og sér eitthvað framandi. Borgarferðir geta líka verið magnaðar og svo elska ég auðvitað að fá smá sól í kroppinn,“ segir Harpa um hvernig ferðalögum hún er hrifnust af.
„Ég er vön að ferðast mikið þannig að ég er búin að missa af nokkrum ferðum frá því Covid byrjaði eins og eflaust margir. Ég var til dæmis á leiðinni í skíðaferð síðasta vetur og hefði pottþétt skroppið eitthvað út síðustu tvö sumur. Fyrir vikið hef ég ferðast mikið innanlands og hef notið þess í botn. Ég fór hringferð með börnunum mínum og hljóp Laugaveginn á tveimur dögum í fyrrasumar. Síðastliðið sumar fór ég meðal annars með vinkonum mínum í geggjaða ferð um Norður- og Austurland,“ segir Harpa um hvaða áhrif heimsfaraldurinn hafði á ferðavenjur hennar. Hún náði þó loksins að fara í vikuferð til Tenerife í haust með vinkonu sinni og segir að sú ferð hafi verið mjög kærkomin.
Áttu þér uppáhaldsstað á Ísland?
„Það er erfitt að gera upp á milli staða á fallega landinu okkar. Ég heillaðist mikið af Borgarfirði eystri í sumar og varð agndofa yfir fegurðinni við Stórurð. Annars hafa Þórsmörk og Landmannalaugar alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér,“ segir Harpa.
„Ég er búin að ferðast víða um landið en ég á eftir að taka Vestfirðina almennilega. Ég hef ekki komið þangað síðan ég var unglingur. Mig hefur til dæmis lengi langað að ganga Hornstrandir. Einnig eru margir staðir á hálendinu sem heilla eftir að útivistarbakterían fór að gera vart við sig.“
Harpa segir að eftirminnilegasta ferðin sem hún hefur farið í sé sennilega útskriftarferð til Balí. „Annars var mín fyrsta alvöruskíðaferð sennilega sú ferð sem hafði mest áhrif á mig á stórum tímamótum í lífi mínu og kveikti heldur betur skíðaáhugann aftur.“
Áttu þér uppáhaldsstað í útlöndum?
„Ég á svo marga uppáhaldsstaði. Ég hef alltaf verið mjög hrifin af Barcelona og París. Mér finnst Ítalía einnig mjög heillandi.“
Hvað gerirðu til þess að stytta þér stundir í flugvél?
„Ég er alltaf búin að hlaða fullt af efni á Ipadinn til að horfa á. Einnig les ég stundum góða bók.“
Ætlar þú að ferðast í vetur?
„Planið er að fara í langþráða skíðaferð til St. Anton í Austurríki í lok janúar ef Covid leyfir.“
Hvert dreymir þig um að fara?
„Eins og staðan er núna dreymir mig bara um að fá að ferðast án allra Covid-leiðinda. Þar sem ég er komin með golfdelluna langar mig að sjálfsögðu að prófa að fara í alvörugolfferð. Mig langar líka mikið til að skoða Ítalíu betur. Annars hefur mig alltaf dreymt um að ferðast eitthvað til Suður-Ameríku, mér finnst ég alltaf eiga þann heimshluta eftir.“