Stefnt er að því að opna fljótandi háklassaíbúðahótel í Dúbaí í byrjun ársins 2023. Hótelið hefur verið í smíðum síðasta árið og verður þetta fyrsta hótel sinnar tegundar í heiminum.
Hótelið, sem hefur hlotið nafnið Sea Palace, er hluti af Kempinski-hótelsamsteypunni. Kempinski-hótelin eru þekkt fyrir lúxus og framúrskarandi þjónustu.
Sea Palace verður fljótandi lúxushótel þar sem alls verða tólf glæsilegar lúxusvillur til útleigu. Einingahúsin verða tengd við aðalbygginguna en hver og ein villa mun hafa sína eigin flotbryggju og verönd. Siglt verður með hótelgesti frá landi og að fljótandi hótelinu með hraðbátum en þeim mun einnig bjóðast að leigja sér slíka báta til að eiga möguleika á að fara í bátsferðir í frítíma sínum. Fréttamiðillinn Daily Star greindi frá.
Fyrirhuguð opnun hótelsins er í byrjun árs 2023 líkt og fram hefur komið en það er skipasmíðafyrirtækið Seagate Shipyard sem sér um smíðina. Mohamed El Bahrawy, forstjóri og stofnandi Seagate Shipyard, segist með eindæmum stoltur af verkefninu og er fullur tilhlökkunar yfir verklokum þess.
„Við erum stolt af því sem við höfum áorkað hingað til. Við erum sérstaklega ánægð með þetta verkefni sem við höfum unnið að í samstarfi við alþjóðleg fyrirtæki sem eru í fararbroddi í ferðamannabransanum,“ sagði hann. „Ég er mjög þakklátur fyrir traustið sem við höfum notið frá Kempinski-samsteypunni.“
Bahrawy sagðist þess fullviss að Sea Palace yrði eitt helsta aðdráttarafl í ferðaþjónustunni í Dúbaí þegar dyrnar þar yrðu opnaðar. „Þetta mun skipa mikla sérstöðu í heiminum öllum.“