Fjölmargir Íslendingar skruppu í sólina til Tenerife um jól og áramót. Á meðal þeirra sem voru á Tenerife um áramótin voru ráðherra, prófessor í líftölfræði og einn þekktasti fasteignasali landsins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, var í leyfi frá störfum en hann var staddur á Tenerife um áramótin. Guðlaugur fagnaði nýja árinu ásamt eiginkonu sinni, Ágústu Johnson, eiganda Hreyfingar.
Athafnakonan Birgitta Líf Björnsdóttir sleikti sólina með fjölskyldunni yfir jól og áramót.
Einkaþjálfarinn Egill Einarsson og sambýliskona hans, Guðríður Jónsdóttir, fóru til Tenerife með börnum og vinum sínum. Á meðal vinafólksins var athafnamaðurinn Ásgeir Kolbeinsson og sambýliskona hans Bryndís Hera Gísladóttir. Stjörnufasteignasalinn Hannes Steindórsson sást einnig njóta á eyjunni grænu.
Athafnakonan Marín Manda Magnúsdóttir og sambýlismaður hennar Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Kviku eignastýringar, voru ásamt börnum sínum á Tenerife.
Björk Eiðsdóttir blaðamaður á Fréttablaðinu og Karl Ægir Karlsson, doktor í svefnrannsóknum, fögnuðu nýju ári í sólinni og það gerði líka Thor Aspelund prófessor í líftölfræði ásamt eiginkonu sinni, Örnu Guðmundsdóttur. Á Tenerife var einnig Anna Þóra Björnsdóttir, uppistandari og gleraugnasali, ásamt eiginmanni sínum, Gylfa Björnssyni.