Leikkonan Kaley Cuoco og aðstoðarkona hennar Emma Madeline Ross virðast hafa verið hæstánægðar með Íslandsferð sína í desember sem leið. Ross birti myndir úr ferðinni á Instagram í vikunni og þakkaði Cuoco fyrir að hafa farið með sig til Íslands.
Cuoco var hér á landi í rúma viku í desember við tökur á þáttunum Flight Attendant fyrir HBO Max. Leikkonan sjálf lofsamaði Íslands alla ferðina á Instagram og vildi helst ekki fara þegar kom að heimför.
Aðstoðarkonan Ross virðist hafa verið jafn ánægð með ferðina en hún birti myndir af þeim á nokkrum ferðamannastöðum. Þá virðast þær hafa orðið hrifnar af flíkum frá 66° Norður en á myndunum má meðal annars sjá Cuoco klæðast sundbol frá merkinu í Sky Lagoon.