Flugfélagið Icelandair hefur sett áætlun sína fyrir sumarið 2022 í sölu. Fjórir áfangastaðir bætast við leiðakerfið, Róm á Ítalíu, Nice í Frakklandi, Alicante á Spáni og Montreal í Kanada.
Félagið flýgur til 43 áfangastaða í millilandaflugi sumarið 2022. Icelandair hefur áður flogið til Alicante í leiguflugi en nú hefur áfangastaðurinn bæst við leiðakerfið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá flugfélaginu. „Við höfum verið að byggja starfsemi okkar upp aftur jafnt og þétt á sama tíma og við höfum þurft að aðlaga okkur að aðstæðum hverju sinni. Sumaráætlun okkar liggur nú fyrir þar sem við erum með erum með 43 áfangastaði þar á meðal nýja og spennandi staði sem eru Róm og Nice. Þá er ánægjulegt að færa Alicante inn í leiðakerfið á sama hátt og við gerðum með Tenerife á síðasta ári sem hefur verið gríðarlega vel tekið,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningunni.
Flogið verður til Rómar tvisvar í viku frá 6. júlí til 4. september. Til Nice verður flogið tvisvar í viku frá 6. júlí til 27. ágúst.
Þrisvar í viku verður flogið til Motnreal á tímabilinu 24. júní til 25. september. Til Alicante verður flogið einu sinni til tvisvar í viku fram til loka október.