Hörður Hilmarsson, forstöðumaður íþróttadeilda Úrval Útsýn, segir að vel gangi að selja miða í ferð á leik Íslands gegn Danmörku sem fer fram í Búdapest annað kvöld. Ferðin var skipulögð með gríðarlega stuttum fyrirvara en fyrir lá að Ísland kæmist í milliriðlakeppni EM í gærkvöldi.
„Við hefðum viljað hafa einn dag í viðbót til að skipuleggja ferðina en þetta hefur gengið vel. Við byrjuðum strax í gærkvöldi og unnum til miðnættis. Síðan byrjuðum við aftur klukkan sex í morgun,“ segir Hörður í samtali við mbl.is.
„Það er ýmislegt sem þarf að ganga upp þegar svona ferðir eru skipulagðar, við þurftum fyrst að tryggja að vélin sem við höfum notað í leiguflug væri tiltæk. Síðan þurfti að tryggja hótel og það lá fyrir í morgun,“ segir Hörður.
Hörður hefur sjálfur fylgst grannt með leikjum Íslands á Evrópumeistaramótinu og hlakkar til að horfa á leikinn annað kvöld.
Innifalið í ferðinni er flug, rúta á leikinn, miði á leikinn, ein nótt á fjögurra stjörnu hóteli með morgunverði og rúta á flugvöllinn. Nánari upplýsingar má finna á vef Úrval Útsýnar.