Rúmlega tuttugu farþegar af þeim 77 sem fóru út til Búdapest í Ungverjalandi á leik Íslands gegn Danmörku ákváðu að framlengja dvöl sína í borginni. Það var því nokkuð tómlegt um að litast í vélinni sem lenti á Keflavíkurflugvelli um klukkan átta í kvöld.
Blaðamaður ræddi við nokkra Íslendinga á hótelinu fyrir brottför í Búdapest sem voru þá að halda af stað út í daginn að skoða borgina en ekki á leið heim.
Af þeim sem framlengdu ætluðu flestir að fara á leik Íslands gegn Frakklandi sem fer fram á morgun, en aðrir ákváðu að framlengja til þess að hafa meiri tíma til að njóta alls þess sem ungverska höfuðborgin hefur upp á að bjóða.
Fjöldi Íslendinga er í Búdapest um þessar mundir til að fylgjast með Evrópumeistaramótinu í handbolta og þegar gengið er um götur borgarinnar má reglulega heyra talað íslensku útundan sér.