Tók stórbrotnar brúðkaupsmyndir við eldgosið

Hjónin Nina og Rand við eldgosið í Geldingadölum.
Hjónin Nina og Rand við eldgosið í Geldingadölum. Ljósmynd/Gabe McClintock

Kanadíski ljósmyndarinn Gabe McKlintock náði stórbrotnum brúðkaupsmyndum af nýgiftum hjónum við eldgosið í Fagradalsfjalli. McClintock sagði Peta Pixel sögu sína. 

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem McClintock kom til Íslands að mynda. Hann hafði unnið sem ljósmyndari í Calgary í Kanada í áratug þegar hann langaði að skipta um gír. Hjón réðu hann til að festa á filmu brúðkaup þeirra á Íslandi árið 2014 og eftir það varð ekki aftur snúið. Myndirnar birtust í miðlum víða um heim og breyttu lífi hans algjörlega. 

„Frá fyrstu mynd sem ég tók þann dag vissi ég að myndirnar yrðu magnaðar en ég hafði ekki hugmynd um að þær myndu draga þessa athygli að sér,“ sagði McClintock. 

Ljósmynd/Gabe McClintock

Á síðasta ári höfðu tilvonandi hjón samband við hann, Nina og Rand, og bókuðu myndatöku fyrir brúðkaup sitt á Íslandi. Þetta var á þeim tíma þegar eldgosið var að hefjast. Parið vildi myndatöku við Reynisdranga og taka svo nokkrar myndir á leiðinni aftur til Reykjavíkur. 

McClintock stakk þá upp á því við þau að þau reyndu að fara að eldgosinu. Nina og Rand tóku vel í það en á brúðkaupsdaginn hafði lítil kvika streymt upp úr gígnum í Geldingadölum og því ákváðu þau að halda sig við upprunalegt plan. 

Um miðjan dag bárust fréttir af því að kvika væri aftur farin að streyma upp á yfirborðið og yfir eina gönguleiðina. Þau ákváðu hins vegar að láta á það reyna að ganga að gosinu en hinar gönguleiðirnar voru enn opnar. 

Ljósmynd/Gabe McClintock

Vel búin héldu þau upp að gosinu og náði McClintock dýrðlegum myndum sem hafa vakið mikla athygli. 

„Þessi taka var ekkert annað en mögnuð. Það voru nokkur andartök þar sem ég var yfir mig heillaður. Ég trúði því ekki að þetta væri að gerast og að við værum á staðnum þegar kvikan fór aftur að streyma,“ sagði McClintock.

Ljósmynd/Gabe McClintock
Ljósmynd/Gabe McClintock
Ljósmynd/Gabe McClintock
Ljósmynd/Gabe McClintock
Ljósmynd/Gabe McClintock
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert