Flutti til Raufarhafnar og framleiðir hljóðbækur

Kolbrún Valbergsdóttir Valby og Einar Ingi Einarsson flutti til Raufarhafnar …
Kolbrún Valbergsdóttir Valby og Einar Ingi Einarsson flutti til Raufarhafnar á síðasta ári og una sér vel. Hér eru þau við Hraunhafnarvita á Melrakkasléttu, nyrsta punkt meginlandsins.

Rithöfundurinn og hljóðbókaframleiðandinn Kolbrún Valbergsdóttir Valby flutti norður til Raufarhafnar á síðasta ári og hefur ekki leiðst í eina mínútu síðan. Þaðan sinnir hún starfi sínu sem rithöfundur og framleiðir einnig hljóðbækur fyrir Storytel en hún bjó sér til hljóðversaðstöðu í bílskúrnum. 

Kolbrún og eiginmaður hennar, Einar Ingi Einarsson landfræðingur, höfðu lengi velt fyrir sér möguleikanum á að flytja út á land. „Í raun var enginn möguleiki sleginn út af borðinu og allir landshlutar komu til greina. Eina markmiðið var að fara á rólegan stað þar sem við værum nálægt náttúru og gætum eignast meiri tíma fyrir okkur sjálf og okkar verkefni,“ segir Kolbrún. 

„Af hverju ekki? Við fengum fallegt hús á einstökum stað. Hér er öll þjónusta sem við þurfum til staðar í litlu en samheldnu samfélagi,“ segir Kolbrún spurð af hverju þau hjónin hafi valið Raufarhöfn. Hún segir að þeim hafi gengið mjög vel að aðlagast samfélaginu og hægari takt landsbyggðarinnar. Þau reyni að taka þátt í samfélaginu eins og sóttvarnaaðgerðir leyfa. 

Miðbærinn á Raufarhöfn, en hús þeirra Kolbrúnar og Einars er …
Miðbærinn á Raufarhöfn, en hús þeirra Kolbrúnar og Einars er það rauða fyrir miðju á myndinni.

Ferðast meira en áður

Kolbrún segir það hafa komið þeim á óvart hversu lítil einangrunin er á Raufarhöfn. „Hér er snjólétt og vegir flestir færir nánast alla daga. Það er líka mun minna mál en við héldum að skreppa til Akureyrar eða í borgina. Við erum dugleg að nýta okkur gistingu innanlands og ferðumst mun meira en áður,“ segir Kolbrún en til Akureyrar er rúmlega tveggja og hálfs tíma akstur.

Eftir flutningana í kyrrðina hafa þau hjónin meiri tíma fyrir sjálf sig og segir Kolbrún það án efa vera einn helsta kostinn við það að búa á Raufarhöfn, auk náttúrunnar sem hún segir vera einstaka. „Og harðduglegt fólk sem lætur sig varða um nágranna sína,“ segir Kolbrún.

Heimskautagerðið er rétt norðan við bæinn.
Heimskautagerðið er rétt norðan við bæinn.

Alltaf dreymt um að verða rithöfundur

Kolbrún skrifa sakamálasögur fyrir íslenskan markað en skrifar líka á ensku. Á ensku skrifar hún helst vísindaskáldskap og fantasíur. Hún er með dreifingarsamning við hljóðbókaframleiðandann Storytel og les hún sjálf inn flestar bækur sínar. „Ég hef líka aðeins stutt við bakið á nýjum rithöfundum sem vilja koma verkum sínum á framfæri í hljóðbókaformi. Það er ótrúlega skemmtilegt að vinna með öðrum rithöfundum,“ segir Kolbrún. 

Frá því Kolbrún var barn hefur hana dreymt um að verða rithöfundur. „Það var alltaf markmiðið að verða rithöfundur en eftir útskrift úr háskólanum datt ég inn í tæknibransann og starfaði þar í 20 ár. Að lokum gat ég þó ekki hunsað sköpunarþörfina og flutningurinn norður hefur gert mér kleyft að einbeita mér eingöngu að henni.“

Sólin rís við Þistilfjörð á janúarmorgni.
Sólin rís við Þistilfjörð á janúarmorgni.

Í faraldrinum hefur það komið æ betur í ljós að fjarvinna hentar hinum ólíku starfsgreinum. Kolbrún segist vera þakklát fyrir að geta valið sér búsetu óháð starfi en lengi vel hefur fólk þurft að velja sér búsetu eftir starfi. 

„Við heyrðum útundan okkur í fyrrasumar að sumt vinafólk okkar héldi að við hefðum neyðst til að flytja út á land, þ.e. misst húsið okkar fyrir sunnan. En það er fjarri lagi, við kusum sjálf að koma hingað og sjáum ekki eftir því,“ segir Kolbrún. 

Hver einstaklingur skiptir máli

Kolbrún fer fögrum um Raufarhöfn og segir að þeim hjónunum hafi ekki leiðst síðan þau fluttu í bæinn. Spurð hversu lengi þau sjái fram á búa þar segir hún að svo lengi sem þeim leiðist ekki, fari þau ekki fet. 

Samheldnin er mikil í bænum og hefur Kolbrún fundið fyrir því. Hún segir krakkana í bænum sérstaklega hafa komið þeim á óvart. 

„Þau eru ekki mörg en svo skemmtilega þroskuð og óhrædd við að tjá sig. Í sumar hitti ég ungan herramann sem opnaði sitt eigið bakarí við hliðina á kjörbúðinni til að safna fé og kaupa sér m.a. fisk og franskar á veitingastað hér á Raufarhöfn. Þar sat hann og spjallaði ófeiminn við erlenda ferðamenn um gæði matarins og kosti þess að hafa aðgang að nýveiddum fiski hér við höfnina. Í svona litlu samfélagi skiptir hver einstaklingur máli og börnin fara ekki varhluta af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert