Fjallað var um Skógarböðin í Eyjafirði í hinu bandaríska ferðatímariti Travel + Leisure á dögunum. Skógarböðin eru nú á lokastigi framkvæmda og stefnt að því að opna þau í lok febrúar eða byrjun mars.
„Það mun án efa fjölga ferðamönnum sem leggja leið sína á norðurhluta landsins með því að blanda skógarböðum og náttúrulaugum,“ segir í umfjöllun T+L og einnig sagt að Bláa lónið sé komið með sterkan samkeppnisaðila.
Skógaböðin eru hönnuð af Basalt arkitektum sem einnig hönnuðu Bláa lónið og Sjóböðin á Húsavík. Þau eru staðsett við rætur Vaðlaheiðar, austan megin í Eyjafirðinum.
Tilkoma þeirra er sérstök en þegar borað var fyrir Vaðlaheiðargöngum árið 2014 streymdi út heitt vatn og streymir enn. Ákveðið var að nýta þetta óvænta tækifæri til þess að byggja upp Skógarböðin. Frá því vatnið tók að streyma úr heiðinni hefur það notið mikilla vinsælda hjá íslenskum ferðamönnum að skella sér í sprænuna sem rennur út í sjó.
Skógarböðin verða sannkallað lúxusheilsulind með tveimur stórum heitum laugum, kaldri laug, tveimur börum við laugina, sánaklefa og hvíldarherbergi.