Leiðist að hanga við sundlaugina

Susan Sarandon elskar að ferðast um Ítalíu og víðar.
Susan Sarandon elskar að ferðast um Ítalíu og víðar. AFP

Susan Sarandon segir það mikilvægt að ferðast og sjá hvernig aðrir í heiminum búa. „Sá sem getur ferðast er ólíklegri til þess að óttast hið óþekkta,“ segir leikkonan í viðtali við The Times.

„Bandaríkin eru það stór að þar eru margir sem hafa aldrei séð hafið. Kostur þess að búa í Evrópu er að þar eru svo margir menningarheimar á tiltölulega litlu svæði. Ég á rætur að rekja til Sikileyjar og ég ferðast mikið til Ítalíu. Ég hélt lengi vel að ég myndi verja mínum efri árum þar enda elska ég matinn þar. Þar er ekki hægt að fá slæma máltíð. Merkilegasti staður sem ég hef heimsótt á Ítalíu er án efa eldfjallaeyjan Pantelleria sem staðsett er á milli Túnis og Sikileyjar. Ég dvaldi hjá vini mínum sem hafði breytt gömlu klaustri í heimili. Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt, þvílíkt landsvæði. Mig dreymir um að fara þangað aftur.“

„Þegar ég var að alast upp þá höfðum við ekki efni á að gera neitt annað en að fara í tjaldútilegur. Ég er elst níu systkina og þegar ég lít til baka þá finnst mér það algjör geðveiki að foreldrar mínir hafi lagt í þetta með öll þessi börn. Okkur var bara hent í aftursæti bíls eins og þvotti og fórum út í óbyggðirnar í kringum New York og New Jersey. En þarna kviknaði áhugi minn á að vera utandyra.“

„Mér finnst alltaf best að vera mikið á ferðinni á ferðalögum. Mér finnst ekki gaman að sitja bara við sundlaugabakkann. Þá fer mér að leiðast. Ég vil sjá listaverk, fara í fjallgöngur, hjólreiðaferðir og annað í þeim dúr.“

Ítalska eyjan Pantelleria á sérstakan stað í hjarta Susan Sarandon.
Ítalska eyjan Pantelleria á sérstakan stað í hjarta Susan Sarandon. Unsplash.com/Ante Hamersmit
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert