Negus 747 farþegaþota breska flugfélagsins British Airways mun senn fá nýtt hlutverk sem partívél á Cotswold flugvellinum á Bretlandi. Einkarekni flugvöllurinn keypti vélina í október árið 2020 og hefur nú eytt rúmlega 14 mánuðum í að gera vélina upp.
Vélin sem umræðir bættist við flota British Airways í febrúar árið 1994 og flaug sitt síðasta farþegaflug 6. apríl á síðasta ári.
Suzanne Harvey er framkvæmdastjóri Cotswold flugvallar og er mjög stolt á breytingunum sem þau hafa gert á vélinni. „Það er búið að taka langan tíma að gera hana örugga fyrir almenning, því þessar flugvélar eru hannaðar til þess að vera í loftinu. Þannig það eru allskonar öryggisráðstafanir sem mæta ekki öryggiskröfum fyrir viðburði á jörðinni. Þannig það þarf að fjarlægja mikið,“ sagði Harvey í viðtali við CNN Travel.
Það hefur kostað félagið um hálfa milljón punda eða um 85 milljónir króna að gera vélina upp. Tæpur helmingur fór í að steypa nýjan pall undir vélina og um fimmtungur fór í rafmagnsvinnu. Þá hefur verkefnið tekið mun lengri tíma en ráð var gert fyrir, en þar spilar meðal annars heimsfaraldurinn inn í.
Harvey sér fyrir sér að fjölmargir viðburðir verði haldnir í vélinni á komandi árum og eru þau með leyfi til að halda brúðkaup þar. Á döfinni eru hin ýmsu partí, meðal annars fyrir sjónvarpsþátt.
„Eina vandamálið sem við höfum ekki enn fundið lausn við eru klósettin. Við höfum ekki náð að láta þau virka,“ segir Harvey og bendir á að klósett í flugvélum séu hönnuð til þess að nota í hærri loftþrýstingi þegar vélin er í loftinu.
„Við vonumst til að negla það vandamál á næstu sex mánuðum eða svo. En eins og er erum við með mjög fín klósett fyrir utan,“ sagði Harvey.