Heimili Mandela orðið að lúxushóteli

Nelson og Winnie Mandela árið 1991.
Nelson og Winnie Mandela árið 1991. AFP

Fyrrum heimili Nelson Mandela, fyrrverandi forseta Suður-Afríku, í Jóhannesarborg hefur nú opnað sem lúxushótel. Breytingarnar á heimili hans hafa ekki vakið mikla gleði. 

Sanctuary Mandela opnaði í september á síðasta ári en það er staðsett í Houghton hverfi borgarinnar. Um er að ræða níu herbergja „boutique“ hótel. Hótelið er hannað í anda Mandela og í lýsingu á hótelinu segir að hvert hebergi endurspegli hið magnaða líf sem Mandela lifði. 

Dvölin á hótelinu er ekki ódýr. Kostar nóttin á venjulegu herbergi, með morgunbat um 32 þúsund krónur. Nótt í forsetasvítunni kostar hins vegar á bilinu 120 til 135 þúsund krónur. 

Mandela eyddi síðustu árum ævi sinnar í húsinu, en hann keypti það árið 1998. Heimsóttu margir þjóðarleiðtogar hann þegar hann dvaldi þar og vörðu tíma með honum. Eftir andlát hans árið 2013 erfði sonur hans Makgatho Mandela, og börn, húsið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert