Sir Elton John klæddi af sér kuldann þegar hann heimsótti Sviss ásamt eiginmanni sínum, David Furnish, á dögunum. Fyrirhugað tónleikaferðalag Eltons Johns hefur heldur betur raskast vegna heimsfaraldursins en hann hefur þurft að fresta nokkrum tónleikum frá því að ferðalagið hófst. Fréttamiðillinn Daily Mail greindi frá.
Elton John reyndi að njóta frítímans til hins ýtrasta og sást þræða svissneskar verslunargötur í bænum Gstaad með eiginmanninum. Voru þeir báðir kappklæddir en smekklegir þegar þeir örkuðu um göturnar í köldu loftslaginu. Elton John klæddist brúnum, mynstruðum jakka, rauðri peysu innanundir og var með síðan trefil um hálsinn. Þá var hann einnig í svörtum, mynstruðum buxum og strigaskóm sem voru í stíl við peysuna og jakkann. Sást til þeirra fara inn í dýrar verslanir eins og Rolex og Hermes þar sem þeir versluðu sér sitthvað.
Bærinn Gstaad er vinsæll ferðamannastaður á þessum árstíma en þangað sækist skíðafólk mest en frábært skíðasvæði er uppi við fjalllendi bæjarins. Ekki fylgir sögunni hvort Sir Elton John hafi skellt sér í snævi þaktar brekkurnar enda verður það að teljast harla ólíklegt sökum aldurs og heilsufars hans.