Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson freistar þess að skella sér til New York í sumar. Hann auglýsti íbúð sína nýlega lausa í skipti fyrir íbúð í stóra eplinu í vor og sumar.
„Er einhver hérna til í íbúðaskipti einhvern tíma á bilinu 12. maí til 20. júlí? Íbúðin er staðsett á Hafnartorgi í miðbæ Reykjavíkur,“ skrifar Högni í hópinn Íslendingar í New York.
Íbúð Högna er öll hin glæsilegasta en Högni segir að hún sé með tveimur svefnherbergjum og tveimur baðherbergjum. Íbúðin er nýtískuleg og opin með glæsilegri eyju og vínkæli. Sérstaklega fallegir hönnunarmunir og listaverk prýða heimilið.
Íbúðaskipti er sniðug leið til þess að ná ferðakostnaðinum niður auk þess sem dvölin verður öðruvísi upplifun. Vinsælt er að vera aðili að íbúðaskiptasíðum. Þó ferðakostnaðurinn lækki augljóslega þegar ekki er greitt fyrir gistinguna á ferðalaginu þá getur verið tímafrekt að finna réttu skiptin. Kostirnir eru því fjölmargir en gallarnir auðvitað einhverjir.