Ferðavefur bandaríska vefmiðilsins CNN, CNN Travel, fjallaði á dögunum um Skógarböðin sem nú rísa við rætur Vaðlaheiðar í Eyjafirði. Eru Skógarböðin lofuð og þau sögð einfaldlega mögnuð.
Skógarböðin hafa vakið mikla athygli í erlendum fjölmiðlum undanfarnar vikur en ferðatímaritið Travel + Leisure fjallaði um þau á dögunum. Samkvæmt umfjöllun CNN Travel opna þau í apríl á þessu ári.
Skógaböðin eru hönnuð af Basalt arkitektum sem einnig hönnuðu Bláa lónið og Sjóböðin á Húsavík. Þau eru staðsett við rætur Vaðlaheiðar, austan megin í Eyjafirðinum.
Tilkoma þeirra er sérstök en þegar borað var fyrir Vaðlaheiðargöngum árið 2014 streymdi út heitt vatn og streymir enn. Ákveðið var að nýta þetta óvænta tækifæri til þess að byggja upp Skógarböðin. Frá því vatnið tók að streyma úr heiðinni hefur það notið mikilla vinsælda hjá íslenskum ferðamönnum að skella sér í sprænuna sem rennur út í sjó.