Alexandra ljóstrar upp um leynistaði

Alexandra Björgvinsdóttir gaf út appið EOP by ABB hinn 15. …
Alexandra Björgvinsdóttir gaf út appið EOP by ABB hinn 15. febrúar síðastliðinn.

Alexandra Björgvinsdóttir hefur unnið hörðum höndum síðustu mánuði að útgáfu ferðaapps sem leiðir notendur á óvænta og einstaka staði á ferðalögum sínum um heiminn. Appið kom út í síðustu viku og heitir EOP By ABB en EOP stendur fyrir extraordinary places sem á íslensku þýðir óvenjulegir staðir. Ferðavefurinn ræddi stuttlega við Alexöndru um útgáfu appsins.

Boltinn fór að rúlla eftir að hún opnaði fyrirtæki sem selur ferðaráð í gegnum rafbækur í snjallsímum. 

„Það varð svo strax mjög vinsælt og þar inni eru einmitt „hot-spots“ og faldir gimsteinar eins og veitingastaðir, kaffihús og barir en ég ákvað að gamni að búa til appið sem eitthvað aukalegt sem gæti virkað bæði með því og eitt og sér,“ segir Alexandra en appið hefur notið þó nokkurra vinsælda og komst á lista yfir mest sóttu öppin í Appstore þremur dögum eftir útgáfu. 

Appið er aðgengilegt í Appstore.
Appið er aðgengilegt í Appstore. Samsett mynd

Þegar það kom út voru 100 staðir í því og svo munu koma nýir staðir í hverri viku. Í appinu eru aðeins gististaðir, allt frá hótelum og hostelum til sumarbústaða og Airbnb-staða.

Þegar ferðavefur mbl.is ræddi við Alexöndru á síðasta ári hafði hún verið búsett um nokkurt skeið í Zurich í Sviss. Þá hafði hún nýlega byrjað að bjóða upp á leiðsögn um borgina. Ferðabaktería Alexöndru og þrá hennar til að upplifa eitthvað nýtt kom að góðum notum við gerð appsins.

„Ég hef geymt myndir og upplýsingar af einstaklega fallegum stöðum sem ég hef fundið á víð og dreif yfir seinustu ár í möppum í símanum og tölvunni, til þess að heimsækja - og nú þegar heimsótt marga þeirra. Ég hugsaði svo bara einhvern vegin svo oft með mér hvað það væri gaman að geta deilt þessu svokallaða safni með öðrum þar sem ég veit fyrir víst að það hafa einnig margir aðrir gaman að því að heimsækja slíka staði,“ segir Alexandra. 

Hún segir að það kosti talsvert mikið að gista á mörgum staðanna, en mælir með því að fólk panti eina til tvær nætur á þessum einstöku stöðum og bóki restina af ferðinni á ódýrari hóteli með góða einkunn. „Ég hef oft gert það og finnst það algjörlega þess virði!“

Ljósmynd/Alexandra Björgvinsdóttir

Tímafrekt en þess virði

„Þetta er eitthvað sem hefur tekið mörg ár og mikinn áhuga, algjörlega. Það tók einnig gríðarlegan tíma að fara svo yfir allt „safnið“ og finna myndir, aðallega vegna þess að það þarf leyfi fyrir hverri og einni mynd sem er ekki mín eigin. Að athuga hvort umsagnir séu nýlegar, finna rétta staðsetningu á kortinu og pinna staðinn á réttum punkti og svo framvegis. En það var mjög gaman að sjá þetta verða til og að hafa þetta loks allt á einum stað, ef ekki bara fyrir mig sjálfa,“ segir Alexandra.

Hún vann alla vinnuna sjálf fyrir utan tæknileg atriði við það að koma appinu í loftið, en þá fékk hún liðsauka frá „developer“.

View this post on Instagram

A post shared by Travel by ABB (@travelbyabb)

Fullkominn tímasetning

Alexandra segir að margir hafi fengið smá áfall þegar hún sagðist vera koma stafrænni ferðaskrifstofu á fót. Bæði vegna þess að conceptið um stafræna ferðaskrifstofu er ný en einnig vegna þess að hún fór af stað í miðjum heimsfaraldri þegar heimurinn var hálf lokaður. 

„Í raun og veru myndi ég segja að þetta hafi verið hinn fullkomni tími til að vera undir radarnum og gera þetta allt almennilega á meðan rólegt er yfir og hafa þetta svo tilbúið, ásamt smá reynslu áður en að allt springur. Heimurinn er loksins að opna aftur núna og ég held að það séu nánast 100% líkur á því að fólk muni fara að ferðast meira núna en nokkru sinni fyrr.“

Ljósmynd/Alexandra Björgvinsdóttir

Hvaða staðir eru í sérstöku uppáhaldi hjá þér?

„Þeir eru alveg ótrúlega misjafnir, allt frá bambus villum á bali, hótelum sem eru byggð inní stórum steinum og „glamping“ í náttúrunni til lúxus hótela í stórborgum. En ef ég ætti að nefna einhvern einn stað sem stendur uppúr einmitt núna í dag þá myndi ég segja Six Senses Shaharut. Það er glænýtt hótel í miðri eyðimörk, eitthvað algjörlega ólíkt Íslandi, sem er alltaf skemmtilegt að upplifa. Minn uppáhalds staður úr appinu breytist þó líklega daglega.“

Hvaða ferðalög eru framundan hjá þér?

„Ég ferðast mjög mikið en það er yfirleitt aldrei neitt planað af viti, nema kannski 2-3 vikur fram í tímann. Ég er allavega staðfest á leið í svissnesku Alpana í næstu viku en ætla svo annaðhvort til Ítalíu að skíða í og skoða Dólómítafjöll eða þá að taka eina af fluginneignunum mínum sem ég hef sankað að mér eftir faraldurinn og fara eitthvað allt annað – yfir páskana. Það er einnig möguleiki á afmælisveislu í Amsterdam í næsta mánuði og svo er alltaf eitthvað meira í bígerð! Mig langar t.d. mjög mikið til Afríku í ár en verð að sjá hvað verður úr því. Ég er að minnsta kosti örsjaldan langt frá næstu ferð!“

View this post on Instagram

A post shared by Travel by ABB (@travelbyabb)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert