Gamanleikkonan Rebel Wilson fagnaði 42 ára afmæli sínu á hóteli en auðvitað á alltaf að taka sér frí og skella sér á hótel á afmælum. Það hefur líklega ekki skemmt fyrir að ferðalagadrottningin og Íslandsvinkonan Wilson var stödd í Mexíkó.
Wilson birti myndir af sér fyrir nokkrum dögum með vinum sínum á leið upp í einkaþotu. Hún sagðist jafnframt ætla verja afmælinu sínu á lúxushótelinu One&Only Palmilla sem er á hinum vinsæla ferðamannastað Cabo.
Það er ekki ódýrt fyrir hinn almenna ferðamann að dvelja á hótelinu, sem hefur fengið fimm stjörnur í öllum helstu ferðatímaritum heims. Allt er til alls á hótelinu sem er við strönd. Nokkrir veitingastaðir eru þar ásamt heilsulind.
Abelardo Rodriguez, sonur forseta Mexíkó, áttaði sig á möguleikum landsins, þar sem hótelið stendur, á miðri síðustu öld þegar hann sá það úr þyrlu. Í fyrstu var hótelið 15 herbergja lúxushótel sem stjörnur áttu auðvelt með að fela sig á enda bara aðgengilegt með þyrlu eða bát. Það hefur lengi heillað Hollywoodstjörnur og eru Oprah og Jennifer Aniston meðal þeirra sem hafa dvalið þar.