Hátt í 300 milljónir til Úkraínu í gegnum Airbnb

Airbnb býður allt að 100.000 flóttamönnum frá Úkraínu frítt húsnæði …
Airbnb býður allt að 100.000 flóttamönnum frá Úkraínu frítt húsnæði til skamms tíma. AFP

Fólk víða um heim hefur tekið upp á því að bóka sér gistingu í Úkraínu í gegnum leigumiðlunarvefsíðuna Airbnb. Fólkið hefur þó ekki hug á því að ferðast til Úkraínu til að gista næturnar sem þau bókuðu, heldur er bókunin hugsuð sem beinn styrkur til almennra borgara í Úkraínu. NPR greinir frá.

Alls eru gistinæturnar sem bókaðar hafa verið í Úkraínu yfir 61.000 og nema tekjurnar af þeim um 2 milljónir bandaríkjadala eða um 267 milljónir króna. 

Sara Brown, sem búsett er í Salt Lake City í Bandaríkjunum, er ein af þeim sem hóf átakið í hópi á Facebook fyrir leigusala á Airbnb. Bókaði hún dvöl í Kænugarði og lét leigusalann vita að hún hygðist ekki koma og gista og að hann gæti litið á bókunina sem beinan styrkt. 

Leigusalinn sem hún styrkti heitir Ekaterina Martiusheva og ræddi við NPR. „Innkoman hefur ekki verið mikil síðustu daga. Við höfum engan rétt á því að biðja landið okkar um hjálp, því allir kraftarnir fara í stríðið og að vinna stríðið,“ sagði Martiusheva. 

Vilja styrkja einstaklinga beint

Brown segir að þessi leið sem hún valdi að fara, til að styrkja við fólk í Úkraínu, gefi henni sterkari og persónulegri tengsl við raunverulega manneskju í Úkraínu. 

„Mér líður miklu frekar eins og ég hafi einhverja hagsmuni að vernda. Ég er miður mín yfir því sem er að gerast í Úkraínu, en ég þekki engan þar. Og núna þykir mér svo vænt um þessa konu og hver örlög hennar verða,“ sagði Brown. 

Brown segir að auðvitað séu leigusalar á Airbnb ekki þau sem hafa það hvað verst í stríðinu, en að það sé leið til þess að finna leigusala sem hafa ekki mikið á milli handanna á Airbnb. Hún bendir sérstaklega á leigusala sem leigja út eitt herbergi, herbergi sem þú þarft að deila með öðrum eða búa í smærri bæjum. 

„Þetta er ekki bara peningur, þetta er stuðningur og hvatning. Við fáum skilaboð frá fólki sem segir okkur vera hugrökk, og það er gott að heyra það. Það er bara magnað,“ sagði Martiusheva sem hefur einnig beint þeim sem vilja styrkja hana á góðgerðarsamtök.

Airbnb hefur einnig reynt að leggja sitt af mörkum vegna stríðsins. Þá hefur fyrirtækið boðið allt að 100.000 flóttamönnum frítt húsnæði til skemmri tíma. Á sama tíma hefur fyrirtækið lagt niður starfsemi tímabundið í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert