Hvað verður um salernisúrgang í flugvélum?

Salerni í flugvélum eru ekki með vatnskassa.
Salerni í flugvélum eru ekki með vatnskassa. Ljósmynd/Pexels/Sourav Mishra

Hefurðu einhvern tímann leitt hugann að því hvað verður um úrganginn sem þú sturtar niður í gegnum salerni í flugvélum? Þú hefur á röngu að standa ef þú stendur í þeirri trú að þvagi og saur sé sleppt út úr flugvélinni á fullri ferð því sú er alls ekki raunin. 

Í fjöldamörg ár hefur svokallaður lofttæmibúnaður séð um salernisúrganginn í flugvélum. Lofttæmandi salernisbúnaður gerir það að verkum að auka og óþarfa þyngd safnast ekki upp í vélunum, þá einna helst vatn. Salerni í flugvélum eru óhefðbundin að því leiti að þau eru ekki tengd vatnskassa líkt og almennt þekkist í vestrænum heimi. 

Salernisúrgangur í flugvélum safnast saman í þar til gerðum lofttæmingartanki á meðan á fluginu stendur en er svo fargað þegar vélin hefur lent. Sótthreinsilögur gegnir einnig stóru hlutverki þegar salernisskálin tæmist og kemur í veg fyrir að óhreinindi og fúkkalykt gjósi upp.

Samkvæmt frétt frá Daily Star er ómögulegt fyrir farþega, flugþjóna eða flugmenn að losa slíka tanka og sleppa úrganginum óvart út í kosmósið. Læsingar tankanna er aðeins hægt að opna utan frá og því þarf aðeins meiri fyrirhöfn en að ýta á einn takka.

Næst þegar þú situr inni á flugvélasalerni þá getur þú í það minnsta leitt hugann að því ferli sem fer í gang um leið og þú sturtar niður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert