Franski skóhönnuðurinn Christian Louboutin heldur heimili í Lissabon en hann á þrjú hús í Portúgal og segir borgina vera í miklu uppáhaldi. Maðurinn á bak við pinnahælana með rauðu sólunum sagði frá leyndardómum borgarinnar í viðtali á vef Condé Nast Traveller.
Íslendingar geta flogið beint frá Keflavík til Lissabon en Play hefur flug þangað í vor. Tilvalið er að feta í fótspor Louboutin í Lissabon sem mælir með strigaskóm í borginni. Skóhönnuðurinn segir borgina sleipa eins og skíðabrekku.
Hinn fullkomni dagur í Lissabon að mati Louboutin fer eftir því hvaða vikudagur er. Á laugardögum stoppar hann á flóamarkaðnum Feira da Ladra. Annars byrjar hann góða daga á dögurð við ánna Tagus. Eftir það gengu hann heim til sín heim og leyfir sér að gleyma sér í borginni. „Lissabon er frábær til þess að ráfa í, það getur tekið mig meira en tvo tíma að komast heim af því það er svo margt að sjá, sérstaklega við Chiado-torgið,“ segir hönnuðurinn. Hann segist elska gamla skartgripi og uppboðssölur sem selja gamla muni í borginni. Sjálfur keypti hann flest sín húsgögn hjá uppboðshúsinu Palácio Do Correio Velho.
Í Lissabon er að finna margar kirkjur og segist Louboutin vera duglegur að stoppa og skoða kirkjurnar. Igreja de São Roque og Convento dos Cardaes eru í uppáhaldi hjá hönnuðinum vegna þess hversu kaþólski stíllinn skín í gegn. „Það var jarðksjálfti á 19. öld sem eyðilagði stóran hluta af borginni og það hefur ekki allt verið endurbyggt. Í sumum tilfellum er ytra byrðið eins en ekkert annað, rétt eins og í Igreja de São Domingos sem er reyndar í uppáhaldi hjá mér. Ég er mjög ánægður ferðamaður þar.“
Louboutin segir Portúgala tala mikið um mat rétt eins og Frakka og er markaðurinn Mercado da Ribeira í uppáhaldi hjá honum. Ásamt því að kaupa matvöru er hægt að setjast niður og borða á veitingastöðum á markaðnum. Hann mælir með veitingastaðnum Santa Clara dos Cogumelos en þar er lagt áherslu á sveppi í matreiðslunni.
Mörgum gömlum húsum hefur verið breytt í söfn. Hönnuðurinn mælir með Museu da Cidade sem hann segir ótrúlegan stað með fallegum garði. The Museu Nacional de Arte Antiga er annað listasafn sem hann mælir með.