Skógarböðin við rætur Vaðlaheiðar í Eyjafirði voru til umfjöllunar á breska miðlinum Daily Mail í vikunni. Þar eru Skógarböðin sögð einstök fyrir þær sakir að þau eru staðsett í skógi, enda ekki mikið um stóra skóga á Íslandi.
„Ísland verður brátt blessað með enn annarri náttúrulaug og bætist þar við um þær 200 laugar sem fyrir eru. Þar á meðal er hið heillandi Sky Lagoon, sem opnaði í apríl á síðasta ári, og Bláa lónið, sem er aðeins of kunnulegt á Instagram. Í apríl munu Skogarboo, eða Skógarböðin, bætast á listann. Böðin eru á um 500 fermetra svæði, sem er agnarsmátt miðað við Bláa lónið sem er á 8.700 fermetra svæði,“ segir í frétt Daily Mail.
„En Skógarböðin eru einstök, þau eru umkringd trjám. Það er sjaldséð á Íslandi, þar sem aðeins um 3% af landinu teljast til skóglendis. Það sem er enn einstakara, gestir hafa tækifæri til að sjá norðurljósin frá lauginni,“ segir enn fremur í fréttinni.
Skógarböðin hafa verið til umfjöllunar í virtum ferðatímaritum og á ferðavef stórra miðla á borð við CNN.
Sigríður María Hammer, sem á 51% hlut í böðunum ásamt eiginmanni sínum Finni Aðalbjörnssyni, sagði í viðtali við ViðskiptaMoggann í síðustu viku að þau stefndu að því að opna fyrir páska. Opnun baðanna hefur dregist, en upphaflega átti að opna þau hinn 11. febrúar.