Nýja-Sjáland opnar á ný

Nýja-Sjáland opnar á ný í vor.
Nýja-Sjáland opnar á ný í vor. Ljósmynd/Pexels/Tim Grundtner

Stefnt er að því að bólusettir erlendir ferðamenn geti ferðast aftur til Nýja-Sjálands frá og með apríl. Strangar reglur hafa verið í gildi á landamærum landsins allt frá því heimsfaraldurinn hófst í mars 2020.

„Það fyllir mig stolti að segja frá því að Nýja-Sjáland er á þessum tímapunkti að verða öruggt land fyrir ferðamenn,“ sagði Jacinda Ardern í gær þegar hún tilkynnti um afléttingarnar. 

Ástralskir ferðamenn geta komið til landsins án þess að fara í sóttkví frá og með apríl, og ferðamenn frá fjölda annarra ríkja mega gera slíkt hið sama frá og með 1. maí. Áður var ráðgert að sóttkvíin yrði ekki afnumin fyrr en í júlí. Sóttkví ferðamanna sem koma frá Kína og Indlandi verður ekki afnumin strax og er ekki gert ráð fyrir að það verði gert á næstunni.

Það sem af er faraldrinum hafa erlendir ferðamenn þurft að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins, bólusettir eða ekki. Þurftu ferðamenn að sæta sóttkví á ríkisreknum hótelum. Hefur það því ekki heillað margan ferðamanninn að skella sér til Nýja-Sjálands þrátt fyrir að heimurinn hafi opnast smátt og smátt undanfarna mánuði. 

Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa komið illa út úr faraldrinum líkt og annars staðar í heiminum, en fyrir faraldurinn var greinin sú arðbærasta. 

3,9 milljónir heimsóttu landið árið 2019 áðurinn faraldurinn hófst.

Árangur Nýja-Sjálands í bólusetningum er einn sá besti í heimi. Hafa um 95% þjóðarinnar fengið tvo skammta. Ómíkron afbrigðið er ríkjandi í landinu um þessar mundir og greindust yfir 21 þúsund manns á þriðjudaginn síðasta. Aðeins 117 hafa látist af völdum veirunnar frá upphafi faraldurs, sem þykir nokkuð ágætt þar sem rúmar fimm milljónir búa í landinu. 

„Nýja-Sjáland er öruggur staður til að heimsækja, og við erum tilbúin til að bjóða ykkur aftur velkomin,“ sagði Ardern í ræðu sinni. 

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert