Tyrkland að hætti Tönju Ýrar

Tanja Ýr Ástþórsdóttir og Alexandra Björgvinsdóttir hafa gefið út leiðarvísi …
Tanja Ýr Ástþórsdóttir og Alexandra Björgvinsdóttir hafa gefið út leiðarvísi fyrir fimm borgir í Tyrklandi.

TravelByAbb, sem Alexandra Björgvinsdóttir rekur, gaf í vikunni út leiðarvísi í samstarfi við Tönju Ýri Ástþórsdóttur, áhrifavald og athafnakonu. Leiðarvísirinn er fyrir Antalaya, Kaş, Fethyie, Pamukkale og Cappadocia auk nærliggjandi svæða.

Tanja hefur alltaf haft gaman af því að deila ferðalögunum sínum á samfélagsmiðlum og veita fólki innblástur fyrir ferðalög. „Því fannst mér samstarfið við TravelByAbb fullkomið platform til að deila öllu því sem ég hef fengið að upplifa og elska í Tyrklandi,“ segir Tanja í viðtali við ferðavefinn um leiðarvísinn. Leiðarvísirinn fæst inni á TravelByAbb.com.

Tanja segir að það sem heillaði hana fyrst við Tyrkland hafi verið fyrst og fremst að þar er hlýtt og gott veður nánast allan ársins hring. „Það er frekar ódýrt að ferðast í Tyrklandi og mikið hægt að gera. Mér finnst tiltölulega auðvelt að ferðast þar og hef ferðast þar mikið ein sem hefur verið virkilega gaman og öðruvísi. Sjórinn á þeim stöðum sem við nefnum í guide-inum er líka eitthvað annað tær,“ segir Tanja. 

Hvað var það sem heillaði þig mest?

„ Ég verð eiginlega að fá að segja hundarnir og kisurnar í Kas. Það er gríðarlega mikið af kisum og hundum sem eru heimilislaus í öllu Tyrklandi og í Kas er einstaklega mikið af þeim miðað við hvað bærinn er lítill. En þegar ég komst að því að það er verið að sjá ansi vel um dýrin þar þá heillaði það mig ansi mikið og hefur yfirleitt alltaf staðið upp úr í Tyrklands ferðunum mínum. Á einum tímapunkti eignaðist ég tvær kisur í nokkrar vikur en svo þurfti ég að segja bæ við þær en ég vissi að hún væri í góðum höndum þar sem eigandinn hennar bjó nokkrum húsum neðar.“

Tönju finnst þægilegt að ferðast um Tyrkland og hefur ferðast …
Tönju finnst þægilegt að ferðast um Tyrkland og hefur ferðast mikið ein um landið.

Matarmarkaðirnir í Kas eru líka svo skemmtileg og hægt er að kaupa hollan góðan mat beint frá bónda. Lífið er virkilega þægilegt í Tyrklandi og veðrið er ekki að skemma fyrir.“

Ef þú mættir velja eitt hótel í Antalaya til að dvelja á í viku, hvaða hótel yrði fyrir valinu?

„Það fer auðvitað svolítið eftir hvers konar ferð maður er að fara í. En ég hef alltaf verið rosalega hrifin af minni hótelum sem eru með svona „boutique“ fíling í sér. Finnst þjónustan og rólegheitin á svoleiðis hótelum alltaf til fyrirmyndar og verð ég því að fá að nefna Perge Hotel þar sem ég átti ótrúlega ánægulega nokkra daga þar á síðasta ári. En svo að sjálfsögðu ef maður er meira í skemmtana gírnum þá myndi ég segja Titanic allan daginn.“

Var mikil áskorun að setja saman leiðarvísinn?

„Í rauninni ekki þar sem ég hef eytt miklum tíma í Tyrklandi og nýttum við Alexandra þekkingu okkar á ferðalögum til að búa til þennan leiðarvísi. Hún sá líka algjörlega um allt skipulagið og utanumhaldið sem gerði þetta enn betra og var með marga góða punkta. Ég verð að fá að stinga hér inn í að þetta sem Alexandra er að gera er hundrað prósent framtíðin í ferðamannabransanum“

Tanja mælir með leiðarvísinum fyrir öll þau sem vilja upplifa …
Tanja mælir með leiðarvísinum fyrir öll þau sem vilja upplifa Tyrkland á einstakan hátt.

Fyrir hverja er leiðarvísirinn?

„Fyrir þá sem eru ævintýragjarnir og þora bóka utanlandsferðina til Tyrklands með hjálp og hugmyndum út frá leiðarvísnum. Þannig getur fólk upplifað einmitt það sem það virkilega fílar. Tyrkland er land sem allir þurfa að upplifa allaveganna einu sinni. Ertu að fara í „roadtrip“? Ertu að fara í rólegheitin? Ertu að fara í djammferðina eða ef þig langar einfaldlega að sjá hvað Tyrkland hefur upp á að bjóða þá er þessi leiðarvísir fyrir þig.“

Eru einhverjir „leynistaðir“ í leiðarvísinum?

„Það eru nokkrir staðir sem ég myndi segja að væru leynistaðir eða leyndar perlur sem ég hef elskað að fá að upplifa. En eitt og sér finnst mér Kas algjörlega leynistaður þó margir vissulega viti nú af honum en það eru svo fáir íslendingar að fara þangað sem mér þykir ansi sérstakt þar sem að ég elska Kas svo miklu meira en Antalya. Vissulega ef ég væri að fara í djammferð væri ég nú samt ekki að fara til Kas og myndi þar að leiðandi kjósa Antalya í staðin. Elska þó báða staði en þeir hafa mismunandi hluti upp á að bjóða.“

Hefurðu fundið einhverja einstaka veitingastaði?

„Ég á minn uppáhalds vegan veitingastað í Kas sem er lítill og krúttlegur umkringdur kisum og er ekta veitingastaður fyrir grænmetisætur, eigandinn var alltaf á staðnum og matseðillinn oft að breytast. Hann er öðruvísi og maturinn góður og ferskur þar sem eigandinn fór á markaðinn á föstudögum að versla inn grænmeti og ávexti fyrir matseðilinn.“

Hvað er ómissandi í ferðalagið að þínu mati?

„Að þora prófa öðruvísi hluti hvort sem það sé að leigja bíl og keyra í öðru landi eða jafnvel fara í langa göngu um hálendi. Upplifa aðra menningu og læra öðruvísi hluti. Það er skapandi og lærdómsríkt að ferðast og klárlega flest mín uppáhalds augnablik koma úr ferðalögum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert