Elísabet Bretadrottning hefur ferðast víða um heim en uppáhaldsstaðir hennar hátignar eru ekki allir langt í burtu. Elísabet heldur bæði upp á lönd í Afríku en líka litla látlausa staði fjarri öllum lúxus á Englandi að því er fram kemur á vef Condé Nast Travelller.
St Mawes á Cornwall á Englandi
St Mawes er fallegt lítið fiskiþorp og þangað fór drottningin í frí þegar hún var barn. Þorpið var í sérstöku uppáhaldi hjá Elísabetu drottningarmóður og fór hún þangað með dætur sínar, Elísabetu og Margréti. Fjölskyldan gisti alltaf á Penolva sem var í eigu Dicks Wilkins sem var vinur drottningarmóður.
Suður-Afríka
Elísabet hafði aldrei farið út fyrir Bretland þegar hún var tvítug. Í febrúar árið 1947 tilkynnti faðir hennar að fjölskyldan væri á leiðinni til Suður-Afríku. Fjölskyldan sigldi til Suður-Afríku og ferðaðist um landið í tvo mánuði.
Malta
Elísabet hefur einu sinni búið í útlöndum en hún bjó á Möltu með Filippusi prinsi eftir að þau gengu í hjónaband. Á meðan þau bjuggu á Möltu lifðu þau frekar venjulegu lífi. Elísabet á margar góðar minningar frá landinu.
Kenía
Drottningin var í Keníu þegar faðir hennar lést. Hún hélt af stað til Keníu sem prinsessa en kom til baka sem drottning ef svo má að orði komast. Fyrst átti ferðin að vera frí fyrir Elísabetu og Filippus áður en hún færi í ferðalag um Eyjaálfu.
Brasilía
Elísabet og Filippus fóru í ævintýralega ferð til Brasilíu árið 1968. Drottningin talaði vel um ferðina árið 2006 og sagðist eiga góðar minningar úr henni.
Kanada
Drottningin hefur farið mörgum sinnum til Kanada. Hún hefur ferðast út um allt landið og fær hreinlega ekki nóg af því.
Skosku hálöndin
Elísabet fer alltaf í sumarfrí í kastala sínum í Balmoral í Skotlandi. Þar fær hún að vera hún sjálf og slaka á, fara í göngutúra, vera með hundunum sínum og vera í fersku lofti. Hún hefur heimsótt Balmoral á hverju sumri síðan hún tók við sem drottning árið 1952. Eugenie prinsessa, barnabarn Elísabetar, sagði í viðtali að amma hennar væri hamingjusömust í Balmoral.