Ragnheiður Ravnaas Vernharðsdóttir býr ásamt fjölskyldu sinni í litlum krúttlegum bæ í Noregi sem heitir Holmestrand. Ragnheiður er kvænt Tommy Ravnaas, flugmanni, og saman eiga þau börnin þrjú, Vernharð, níu ára, Viðar, sex ára, og Antoniu sem er ekki orðin eins árs. Ragnheiður og fjölskylda ákváðu að flytja frá Íslandi til Noregs sumarið 2019 vegna sérnáms hennar í læknisfræðum en Ragnheiður kláraði kandídatspróf við Háskóla Íslands það sama ár.
„Ég var fyrir löngu búin að ákveða að fara í augnlækningar og hentaði sjúkrahúsið í Tønsberg best, þar sem það er næst Holmestrand. Við ætluðum hins vegar ekkert að flytja alveg strax, en þegar ég var að klára kandídatsárið mitt þá fékk ég símtal frá yfirlækni augndeildarinnar í Tønsberg, þar sem hann spurði hvort ég gæti byrjað strax þetta sama sumar. Ég var búin að vera í sambandi við augndeildina nokkrum mánuðum áður, heimsótti deildina og lét þau vita hvenær ég myndi klára kandídatsárið og sagðist vera tilbúin að koma hvenær sem er eftir það. Ég fékk hins vegar ekki stöðuna þetta sumar vegna þess að pappírsvinnan var ekki tilbúin í tæka tíð. Við ákváðum samt sem áður að slá til og flytja út því það losna stöður reglulega og ákvað ég bara að bíða eftir þeirri næstu,“ segir Ragnheiður um tildrög flutningana en stuttu síðar landaði hún sérnámslæknisstöðu á augnlæknadeildinni við sjúkrahúsið í Tønsberg líkt og til stóð.
Ragnheiði líkar vel við sig í Noregi. Hún segir veðurfarið vera það besta við Noreg en hún eigi það til að sakna hins einstaklega afslappaða viðhorfs sem einkennir Íslendinga. Norðmenn geti stundum verið svolítið ferkantaðir.
„Veðrið hér er svo stabílt og fínt. Maður getur stólað á að fá milt vor, sól á sumrin, fallegt haust og snjó á veturna. Við erum miklu duglegri við það að vera úti allan ársins hring eftir að við fluttum hingað. Ég sakna stundum fjölskyldu og vina en ég sakna líka viðhorfs Íslendinga til alls, það er svo afslappað. Hlutunum er alltaf reddað á Íslandi en í Noregi er allt frekar bókstaflegt,“ segir Ragnheiður.
Bærinn Holmestrand er lítill og skemmtilegur kaupstaður, staðsettur í um það bil klukkustundar akstursfjarlægð suður af höfuðborginni Osló. Fjölskyldan hefur í nógu að snúast frá degi til dags í bænum og unir hver og einn fjölskyldumeðlimur sér vel í daglegu amstri að sögn Ragnheiðar.
„Ég hef verið í fæðingarorlofi frá því í sumar en á meðan höfum við Tommy notað tímann til að setja á laggirnar netþjálfun fyrir barnshafandi konur og konur sem hafa eignast börn. Ég hef alltaf æft reglulega, en á mínum fyrri meðgöngum hefur mér fundist erfitt að finna út úr því hvernig ég eigi að æfa, hvort það sé öruggt, hvað sé öruggt að gera og svo hvenær og hvernig ég eigi að koma mér af stað aftur eftir fæðinguna,“ útskýrir Ragnheiður sem heldur úti vefsíðunni Baby Let's Move.
„Við erum nýbúin að leggja lokahönd á appið okkar sem varð að veruleika núna í mars en þjálfunin verður aðgengileg í appinu. Þar sem mig langaði í upphafi að ná bæði til íslenskra og norskra kvenna ákváðum við að hafa allt saman á ensku,“ segir Ragnheiður en í appinu má finna sérsniðin æfingaplön fyrir hvern þriðjung meðgöngunnar.
„Síðan eru líka prógröm í heilt ár fyrir konur sem hafa eignast börn, svona „Postpartum Programs“. Af minni reynslu er það að byrja að æfa aftur eftir meðgöngu eitt það erfiðasta sem ég hef gengið í gegnum, bæði líkamlega og andlega. Markmiðið með þessu prógrami er fyrst og fremst að aðstoða konur að koma sér aftur af stað eftir fæðingu,“ segir hin kraftmikla Ragnheiður.
Fjölskyldan stundar kappakstursíþróttir af eljusemi. Ragnheiður segir íþróttina afar fjölskylduvæna þrátt fyrir að einhverjir kunni að hrista höfuðið yfir þeirri fullyrðingu. Hún segir fjölskyldustundirnar á kappakstursbrautinni búa yfir miklum gæðum og að þær stundir séu þeim dýrmætar.
„Við stundum gokart í frítímanum okkar. Þetta er æðisleg íþrótt. Þetta sport er fjölskylduvænt og skemmtilegt, við erum öll í þessu saman sem lið. Ég held mig bara mest við mitt hlutverk og það er að vera liðsstjóri,“ segir Ragnheiður og hlær.
„Gokart er stórt hérna úti og það eru mjög margir krakkar í þessum minnstu flokkum, svo það er alls ekki gefið að ná topp sætunum. Venni náði sínum fyrsta verðlaunapalli í Kristiansand í júní 2021, þar sem hann nældi sér í 3. sæti. Svo í Kongsberg í ágúst var hann að nálgast sinn fyrsta sigur. Þá rigndi mikið, en Venni er ótrúlega góður í rigningu þó ég segi sjálf frá. Brautin verður mjög sleip og erfið og verður maður að keyra allt öðru vísi en þegar það er þurrt,“ útskýrir hún.
„Í Noregi eru um það bil 30 gokartbrautir. Sumar þeirra eru einungis nýttar fyrir gokartleigu en aðrar fyrir bæði leigu- og keppnis-gokart, það er að segja gokartiðkendur. Þetta er mjög vinsæl íþrótt á heimsvísu fyrir alla aldurshópa og byrja flestir atvinnuakstursíþróttamenn akstursíþróttaferil sinn í gokart,“ segir Ragnheiður.
„Eins og er eru það Tommy og Venni sem keyra. Ég prófaði kartinn hans Tommy af og til upp á gamanið áður en ég varð ólétt og Viðar ætlar svo að byrja af krafti núna í sumar. Svo sjáum við hvað Antonia vill gera þegar hún er orðin nógu stór,“ segir hún en viðurkennir að mömmuhjartað taki stundum kipp. „Ég er orðin mun hræddari við allt eftir að ég varð mamma en finnst þessi íþrótt mun skárri en til dæmis motorcross,“ segir Ragnheiður sem stundaði sjálf mótorhjólaíþróttir á yngri árum.
Ragnheiður segir að frá því fjölskyldan fluttist búferlum til Noregs hafi lífið litast af margvíslegum ævintýrum. Samverustundirnar hafi aukist til muna með tilheyrandi innlögnum í minningarbanka hvers og eins. Þá hafi ferðalög einnig orðið mun tíðari, bæði til Íslands og innan Noregs.
„Ævintýri er rétta orðið,“ segir Ragnheiður um tímann sem fjölskyldan hefur átt í Noregi. „Við stofnuðum keppnisliðið Ravnaas Racing og höfum nú nýlega opnað heimasíðuna okkar. Við mætum yfirleitt öll saman á allar æfingar, hittum aðrar fjölskyldur á brautinni, krakkarnir leika sér saman á milli þess sem þau keyra og svo ferðumst við víða um landið á hinar mismunandi keppnir,“ segir Ragnheiður sem sinnir mikilvægu hlutverki sem liðsstjóri fjölskyldunnar.
„Það er ýmislegt sem þarf að hafa yfirsýn yfir í svona kappakstursliði, til dæmis æfingatíma, keppnisdaga og skipulag á keppnum,“ segir Ragnheiður en fjölskyldan tekur þessu sporti mjög alvarlega og hefur komið sér upp kappaksturshermi á heimilinu svo að æfingarnar geti gengið hraðar fyrir sig, hvenær sólarhringsins sem er.
„Þar geta strákarnir keyrt alls kyns kappakstur, allt frá gokart upp í Formúlu 1. Þeim finnst að sjálfsögðu skemmtilegast að keyra Formúlu 1. Venni æfir sig í herminum á hverjum morgni áður en hann fer í skólann og hann er ekkert feiminn við það lengur að segja að Formúla 1 sé draumurinn hans. Hann langar að verða fyrsti Íslendingurinn til þess að komast í Formúlu 1,“ segir Ragnheiður og bætir við að Viðar sé loks farinn að ná niður á pedalana á herminum og ætlar sér að feta í fótspor stóra bróðurs.
„Við erum með háleit markmið fyrir næstu misseri,“ viðurkennir Ragnheiður og segist vel geta séð það fyrir sér að flytja aftur til Íslands í náinni framtíð og sjá um rekstur á kappakstursbraut.
Þó svo að fjölskyldan hafi það gott í Noregi er alltaf eitthvað við Ísland sem togar í taugarnar. Ragnheiður segir flutninga til Íslands á næstu árum vel koma til greina en eiginmaður hennar, Tommy, starfaði sem flugmaður hjá Icelandair áður en heimsfaraldurinn gerði vart við sig. Starfið hjá Icelandair líkaði honum vel og gæti hann vel hugsað sér að starfa hjá fyrirtækinu aftur.
„Ég á ennþá nokkuð eftir af sérnáminu mínu hérna úti og þegar og ef ég byrja í doktorsnámi þá bætast líklega nokkur misseri við þann tíma,“ segir Ragnheiður. „En við sjáum nú alltaf fyrir okkur að flytja aftur „heim“. Þrátt fyrir að Tommy sé fæddur og uppalinn í Noregi er hann alveg til í að flytja aftur til Íslands. Hann langar að starfa fyrir Icelandair aftur en sem stendur starfar hann sem aðstoðaryfirflugkennari hjá stórum flugskóla hérna úti,“ segir hún.
„Hins vegar verðum við að geta stundað gokart áfram eftir að við flytjum „heim“, en eins og er vantar gokartbraut á Íslandi sem uppfyllir alþjóðlega staðla,“ segir Ragnheiður ákveðin.
„Við höfum því verið í sambandi við Hafnarfjarðarbæ um byggingu slíkrar gokartbrautar og hefur Hafnarfjarðarbær tekið vel í okkar tillögur. Þetta er allt í ferli en tekur bara langan tíma. Bráðum fer að líða að því að við förum að finna fjárfesta til að gera þetta með okkur,“ segir hún staðföst.
Ragnheiður segir kappakstursíþróttir geta verið gagnlegar þeim einstaklingum sem ekki tolla í hefðbundum íþróttum. Draumurinn sé að byggja upp íþróttina á Íslandi og breyta hugsjón almennings um kappakstursíþróttir.
„Um leið og fólk fær útrás fyrir hraða og spennu á nokkuð öruggan hátt er gokart einnig lærdómsríkt. Það snýst ekki allt einungis um að keyra hratt heldur líka að sinna sínum karti vel til að ná meiri og betri árangri,“ segir Ragnheiður og er viss um að kappakstursíþróttir veiti áhugasömum einstaklingum framþróun.
„Gokartmenningin er þroskandi og uppbyggjandi, en það gilda strangar reglur er varða umgengni og hátterni bæði innan og utan brautar. Áhersla er lögð á virðingu og vinsemd við aðra iðkendur. Félagsskapurinn sem myndast í kringum sportið er ómetanlegur,“ segir hún.
„Við erum handviss um að áhuginn hjá Íslendingum sé til staðar fyrir gokart. Við eigum heimsklassa íþróttafólk í svo mörgum íþróttum og af hverju ekki í kappakstri líka? Eins og ég nefndi í upphafi, þá byrja flestir atvinnuakstursíþróttamenn akstursíþróttaferil sinn í gokart – er ekki kominn tími á að koma fyrsta Íslendinginum í Formúlu 1?“ segir Ragnheiður sannfærð að lokum.