Brandur leiðir fólk á slóðir ævintýra

Brandur Jón Hrannarson Guðjónsson er sannkallaður ævintýramaður og leggur sig …
Brandur Jón Hrannarson Guðjónsson er sannkallaður ævintýramaður og leggur sig fram við að skapa spennandi og skemmtilegar ferðir.

Leiðsögumaðurinn Brandur Jón Hrannarson Guðjónsson er sannkallaður ævintýramaður. Hann vinnur við að skipuleggja hjólaferðir og hefur hjólað með Íslendinga á stórbrotnum stöðum víða Evrópu. Í sumar leiðir hann hjóla- og siglingaferð um Króatíu en Brandur hefur stýrt ferðum um landið síðan 2013. 

Brandur hefur unnið sem leiðsögumaður hjá Fjallakofanum og systurfélögum hans síðan í maí 2007 að frádregnu einu ári. Fyrstu árin var hann í aukahlutverki en frá ársbyrjun 2016 hefur leiðsögumannastarfið verið hans aðalstarf. 

Hann kom fyrst til Króatíu árið 2004 sem ferðamaður og fór sem leiðsögumaður fyrir aðra ferðaskrifstofu árið 2006. Þegar hann byrjaði með hjólaferðirnar var hann því orðinn nokkuð kunnugur staðháttum. 

Brandur hefur farið í hjólreiðaferðir um Króatíu frá árinu 2013.
Brandur hefur farið í hjólreiðaferðir um Króatíu frá árinu 2013.

„Ég var strax ákveðinn í að þangað yrðum við að fara með hópa – en síðan kom hrunið og það var haustið 2013 sem við fórum með fyrsta hópinn þangað, og þá í hjólreiða- og siglingarferð um Kvarnerflóann. Árlega höfum farið með einn eða fleiri hópa í svona ferðir, að sjálfsögðu að undanskildum tveimur síðustu árum, og á þessu ári verðum við með tvær ferðir í Kvarnerflóann og nágrenni hans,“ segir Brandur. 

Í ferðum í sumarsins verður notast við rafmagnshjól og siglt milli áfangastaða á bátnum Albatros MS. Í upphafi ferðar verður dvalið í Ljubljana og sú fallega borg skoðuð, og í lok ferðar verður farið að Bled vatninu í Slóveníu, einum vinsælasta ferðamannastað landsins.

Árlega fer Brandur Jón með hjólahópa meðfram Dóná, og þar …
Árlega fer Brandur Jón með hjólahópa meðfram Dóná, og þar er m.a. notast við svona báta sem sérhæfa sig í að ferja hjólafólk á milli árbakkanna.

Hjólar um alla Evrópu

Brandur segir að ferðin, og flestar ferðirnar sem hann skipuleggur, séu fyrir venjulegt fólk sem hefur gaman af því að hjóla og vill upplifa nýtt landlag, loftslag og menningu. 

„Vissulega þarf fólk að vera vant hjólreiðum, en með tilkomu góðra rafhjóla hefur stækkað sá hópur sem getur tekið þátt í svona ferðum. Og svo er þetta bara svo mikið ævintýri; báturinn, svæðið, hjólaleiðirnar, samveran,“ segir Brandur. 

Brandur hefur leitt ferðir um fjölbreytt lönd, Ítalíu, Austurríki, Rúmeníu, auk Króatíu og Slóveníu en hann fer líka í ferðir hér heima á Íslandi. 

Fastur liður í hjóla- og siglingarferðunum til Króatíu er sjósund …
Fastur liður í hjóla- og siglingarferðunum til Króatíu er sjósund í blátæru Adriahafinu.

Ferðirnar hans eru orðnar mjög vinsælar og ár eftir ár sér hann sömu andlitin. „Fjöldi þeirra sem farið hefur með mér er líka orðinn talsverður, en þó ekki alveg í takt við fjölda ferðanna því þetta er í mörgum tilfellum sama fólkið sem fer með mér í hjólaferðir ár eftir ár og ég þarf því að passa að bjóða upp á eitthvað nýtt á hverju ári, t.d. er einn hópurinn sem fer með mér í september næstkomandi að koma með mér í fimmta sinn. Það eru svo ein hjón sem eiga „metið“, en þau hafa farið með mér í átta mismunandi hjólaferðir síðan 2010,“ segir Brandur. 

„Ef það er eitthvað eitt sem gerir mig auðmjúkan og þakklátan, en um leið heldur mér á tánum við að reyna að gera enn betur í hvert sinn, þá er það þetta fólk sem treystir manni fyrir frítíma sínum ár eftir ár, hér er því kærkomið tækifæri til þess að þakka þessu fólki öllu kærlega fyrir mig,“ segir Brandur. 

Ýmislegt ber fyrir augu þegar víða er ferðast, hér eru …
Ýmislegt ber fyrir augu þegar víða er ferðast, hér eru Ítalskir hobbýbændur í heyflutningum.

Náttúran í fyrsta sæti

Í ferðum sínum setur Brandur alltaf náttúruna í fyrsta sæti. Bæði út frá fegurð hennar og fjölbreytni. Það var náttúran sem heillaði hann mest við Króatíu og segir hann að Plitvise vötnin vera einn af fallegustu stöðum sem hann hefur komið á. Plitvise vötnin eru einn af átta þjóðgörðum landsins. 

„Ég verð líka að nefna blátært Adríahafið sem farþegar okkar fá mörg tækifæri til þess að synda í þegar við erum í siglingar- og hjólaferðunum okkar þar. Og svo eru Króatar afskaplega þægilegt fólk, gestrisið og hjálpsamt – og það hef ég fengið að reyna bæði í blíðu og stríðu.“

Síðasta ferðalag sem Brandur fór í var hjólaferð á síðasta ári. „Það var ferð sem ég kalla „Um dali vestur ...“ þar sem við hjóluðum á sjö dögum frá Spittal an der Drau í Austurríki yfir að Gardavatninu á Ítalíu. Afskaplega flott ferð, þó ég segi sjálfur frá, þangað ætla ég aftur síðsumars og hlakka mikið til.“

Stórbrotið landslagið við norðurenda Gardavatnsins svíkur engan.
Stórbrotið landslagið við norðurenda Gardavatnsins svíkur engan.

Stríðnispúki og ævintýrakarl

Eitt eftirminnilegasta ferðalag Brands var til Rúmeníu árið 2017 en þangað leiddi hann hóp í hjólreiðaferð. „Þar var margt sem ennþá er ljóslifandi í huga mínum. Aðstæður ollu því síðan að ég hef ekki farið þangað aftur, en nú stefni ég á að endurtaka leikinn 2023, því bæði hjólaleigustrákurinn og leiðsögumaðurinn úr þeirri ferð bíða spenntir eftir að fá mig aftur með hóp, og við erum að skrifast á um það þessa dagana,“ segir Brandur.

Þó Brandur Jón fari víða með hópa líður honum þó …
Þó Brandur Jón fari víða með hópa líður honum þó best af öllu í Mýrdalnum, sinni kæru heimasveit.

Önnur eftirminnileg ferð í huga hans er hjólaferð sem hann fór í mars árið 2004. Þá fór hann að nóttu til, í harðfenni, neðan úr byggð í Skaftártungu og inn í Hólaskjól, sem er gagnamannahús og ferðamannaskóli í grennd við Eldgjá. 

„Þar var hópur af jeppa- og sleðafólki með síðbúið Þorrablót og ég ákvað að stríða þeim aðeins með því að koma á reiðhjóli í heimsókn. Þeim brá auðvitað við að fá „karlfífl á reiðhjóli“ í heimsókn þegar þau voru komin þarna á kraftmiklum snjósleðum og jeppum á stórum dekkjum! Það var svo mikið frost að raddböndin í mér frusu, þannig að þegar ég fór að tala við þau var eins og ég hefði andað að mér helíumgasi, svo skrækróma var ég. Þarna stoppaði ég í um það bil eina klukkustund áður en ég hjólaði svo aftur til baka. Ég passaði mig á að vera á sömu slóðum og hópurinn þannig að hræið af karlinum fyndist ef eitthvað kæmi uppá, sem það betur fer gerðist ekki. Og ennþá er ekkert sem hefur náð að toppa þetta; að vera aleinn á hjóli í þessu fallega landslagi á harðfenni í glampandi tunglskini um miðja nótt – ég fæ ennþá gæsahúð af ánægju þegar ég minnist þessarar stórkostlegu upplifunar!“

Um og umhverfis Eldhraunin eru hjóla- og söguferðir um sögusvið …
Um og umhverfis Eldhraunin eru hjóla- og söguferðir um sögusvið Skaftáreldanna 1783-1784 sem Brandur hefur verið með í samstarfi við hótel Klaustur.

Brandur skipuleggur líka ferðir um Ísland og nú í vor mun hann fara margar söguferðir í nágrenni Kirkjubæjarklausturs. Hann kallar ferðina Um og umhverfis Eldhraun og fléttar saman hjólaleiðir og sögur allt frá Skaftáreldum og til okkar tíma. Frá páskum er hann bókaður í fjölda ferða í útlöndum. „Fyrsta hjólaferðin verður til Riva del Garda í lok maí, en sá staður á sérstakan stað í hjarta mínu. Það er því til margs að hlakka!“

Eins og ótal margir aðrir fóru þau Inga Björt H. …
Eins og ótal margir aðrir fóru þau Inga Björt H. Oddsteinsdóttir í Stuðlagil 2020.
Afi með Klöru Björtu, yngsta barnabarnið, í burðarstól fyrir nokkrum …
Afi með Klöru Björtu, yngsta barnabarnið, í burðarstól fyrir nokkrum árum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert